Fara í innihald

Jacques Cousteau

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 4. desember 2019 kl. 15:28 eftir Akigka (spjall | framlög) Útgáfa frá 4. desember 2019 kl. 15:28 eftir Akigka (spjall | framlög)
(breyting) ← Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Jacques Cousteau árið 1972.

Jacques-Yves Cousteau (11. júní 191025. júní 1997) var franskur sjóliðsforingi, kafari, rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður sem er þekktastur fyrir heimildarmyndir og heimildaþætti sína sem fjalla um hafið og lífríki hafsins. Hann átti þátt í að þróa köfunarlungað, var frumkvöðull á sviði hafverndunar og var meðlimur Frönsku vísindaakademíunnar. Hann var frumkvöðull í notkun neðansjávarkvikmyndavéla og kafbáta.

Hann gerði sínar fyrstu myndir á stríðsárunum með Marcel Ichac og vakti athygli fyrir myndina Épaves þar sem þeir notuðust við frumgerðir köfunarlungans fyrir fríköfun. Eftir stríð var hann fenginn til að setja upp neðansjávarrannsóknarhóp fyrir Franska flotann. Árið 1949 hætti hann störfum hjá flotanum og árið eftir leigði hann skipið Calypso til að nota sem rannsóknarskip. Árið 1953 gaf hann út metsölubókina The Silent World: A Story of Undersea Discovery and Adventure ásamt samstarfsmanni sínum Frédéric Dumas. Þremur árum síðar kom samnefnd heimildarmynd út sem notaðist við neðansjávarmyndatöku í lit. Myndin vann Gullpálmann á Kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Í upphafi 7. áratugarins vann Cousteau að verkefni sem gekk út á að skapa neðansjávarbyggð til að lengja þann tíma sem fólk gæti dvalist neðansjávar. Hann gerði sjónvarpsþáttaröðina The Undersea World of Jacques Cousteau í samstarfi við bandarískar sjónvarpsstöðvar. Þættirnir voru sýndir frá 1966 til 1976. Önnur þáttaröð, The Cousteau Odyssey, var sýnd frá 1977 til 1982.

Cousteau lést 1997 úr hjartaáfalli. Hann hafði gifst aftur 1991 og seinni kona hans tók við stjórn samtakanna sem hann hafði stofnað. Síðustu æviár hans stóðu þau í deilum við elsta son Cousteaus og fyrrum samstarfsmann, Jean-Michel Cousteau, vegna notkunar nafnsins.

Persónuleg kynni þeirra Cousteau voru Ian Fleming innblástur fyrir lýsingar í skáldsögunni Live And Let Die frá 1954.

Cousteau var innblástur fyrir kvikmyndina The Life Aquatic with Steve Zissou eftir Wes Anderson frá 2004.