Fara í innihald

Bill Anders

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
William Alison Anders
Bill Anders á Íslandi árið 2013.
Bill Anders á Íslandi árið 2013.
Fæddur 17. október 1933(1933-10-17)
Hong Kong
Látin(n) 6. júlí 2024
San Juan, Washingtonfylki
Flugslys
Tími í geimnum 6 dagar, 3 klukkustundir, 0 mínútur og 42 sekúndur
Verkefni Apollo 8

William "Bill" Alison Anders (fæddur 17. október 1933, dáinn 7. júní 2024) var bandarískur geimfari og síðar sendiherra. Hann var tunglferjuflugmaður í þriggja manna áhöfn Apollo 8 leiðangursins árið 1968, ásamt Frank Borman og Jim Lovell. Þeir þrír voru fyrstir til að yfirgefa sporbraut Jarðar, fljúga til og fara á sporbraut um Tunglið. Þeir voru einnig fyrstir til að sjá bakhlið tunglsins. Á braut um Tunglið tók Bill hina frægu ljósmynd „Jarðarupprás“. Galen Rowell hjá National Geographic tímaritinu hefur kallað myndina þá áhrifamestu sem tekin hefur verið af jörðinni.[1] Auk þess varð Bill fyrstur manna til að taka mynd af jörðinni í heild sinni, en menn höfðu þá aldrei ferðast jafn langt frá jörðinni.[2] Bill var í varaáhöfn Apollo 11 leiðangursins árið 1969. Hann er einn af aðeins 24 einstaklingum sem flogið hafa til tunglsins.[3] Anders lést í flugslysi, níræður að aldri, árið 2024. [4]

Æfingar á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Aðalgrein: Æfingar tunglfara í Þingeyjarsýslum

Árið 1965 kom hópur bandarískra geimfara til æfinga á Íslandi og var Bill Anders meðal þeirra. Hann hafði áður dvalið við skyldustörf í herstöð Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli og var því kunnugur staðháttum. Hann kom aftur til æfinga á Íslandi árið 1967 og var félagi hans Neil Armstrong þá með í för.[5] Árið 2013 heimsótti Bill Ísland á ný og fór á gömlu æfingarstaði geimfaranna, m.a. í Nautagil, Drekagil og Öskju.

Apollo 8 var fyrsta flugið til tunglsins. Leiðangurinn lagði af stað 21. desember 1968 og fór á braut um tunglið að kvöldi 23. desember. Geimfarið fór tíu hringi kringum tunglið áður en því var skotið aftur til jarðar. Áhöfnin lenti heilu og höldnu í Kyrrahafinu þann 27. desember 1968. Neil Armstrong og Buzz Aldrin voru í varaáhöfn Apollo 8 ásamt Fred W. Haise og þjálfuðu þeir með áhöfn Apollo 8 fyrir leiðangurinn.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]