Fara í innihald

Saga hagfræðinnar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Saga hagfræðinnar fæst við sögu hagfræðikenninga og hagfræðilegrar aðferðafræði frá fornöld til okkar daga. Hagfræði er tiltölulega ung fræðigrein, en hún varð til sem slík á 17. öld. Ýmsir heimspekingar og hugsuðir höfðu þó skrifað um hagfræðileg málefni áður. Kaupskaparstefnan og búauðgisstefnan eru almennt taldar vera fyrstu heildstæðu hagfræðikenningarnar. Adam Smith er oft kallaður faðir hagfræðinnar, en hann skrifaði síðla á 18. öld og var upphafsmaður klassískrar hagfræði. Sósíalísk hagfræði og marxismi eiga rætur að rekja til Karl Marx. Nýklassísk hagfræði kom fram á sjónarsviðið á 19. öld og varð ráðandi hreyfing innan hagfræðinnar á þeirri tuttugustu. John Maynard Keynes gerði þjóðhagfræði að vinsælli nálgun innan hagfræðinnar á fyrri hluta 20. aldar. Nútíma hagfræði er blanda af ýmsum nálgunum.

Hagfræði fram á 17. öld

[breyta | breyta frumkóða]

Hagfræði á fornöld og miðöldum

[breyta | breyta frumkóða]

Heimspekingar hafa skrifað um hagfræðileg málefni allt frá fornöld. Hið enska heiti á hagfræði, economics, er dregið af gríska orðinu oikonomia sem þýðir „stjórn heimila“ eða „góðir stjórnarhættir“. Gríski heimspekingurinn Xenofon skrifaði um verkaskiptingu og minnkandi jaðarnytjar. Aristóteles lýsti viðskiptum tveggja einstaklingra og taldi að viðskiptin gætu aðeins verið hagkvæm ef báðir aðilar að viðskiptunum myndu hagnast á þeim. Hann greindi á milli virðis í notum og virðis í viðskiptum og taldi að ef upp kæmi ágreiningur á milli tveggja aðila um verðmæti gæða í viðskiptum þyrfti ríkið að grípa inn í viðskiptin og ákvarða verðið. Aristóteles var jafnframt fyrsti maðurinn til að lýsa því hvaða skilyrði gjaldmiðill yrði að uppfylla; hann taldi að gjaldmiðill yrði að vera einsleitur, varanlegur, hafa innra virði og vera handhægur. Verk Platons Ríkið fjallar einnig að nokkru leyti um hagfræðileg málefni en í samræðunni lýsir Platon hugmyndum um nauðsyn sameignar meðal stjórnenda ríkisins,[1] en óljóst er hvort einkaeignarrétti sé til að dreifa hjá lægri stéttum ríkisins. Í Lögunum, sem var ritað eftir Ríkið, er eignarrétturinn ekki afnuminn þótt honum séu skorður settar.

Hinn kínverski heimspekingur Konfúsíus taldi að skattar ættu að vera lagðir á framleiðslu einstaklinga, að ríkisútgjöld ættu að fylgja tekjum ríkisins, að lifnaðarhættir ættu að fara eftir samfélagsstétt og að hið opinbera ætti ekki að hafa óþarflega mikil afskipti af atferli einstaklinga. Hinn arabíski fræðimaður Abu Hamid al-Ghazali skrifaði um samfélagsleg velferðarföll, verkaskiptingu, og um það hvernig markaðir spretta upp náttúrulega í mannlegu samfélagi.[2]

Kaupskaparstefna er kenning um utanríkisviðskipti sem gengur út á að hámarka vöruskiptajöfnuð.

Á miðöldum var kirkjan ríkjandi þjóðfélagsstofnun í Evrópu og hafði hún mikinn áhuga á réttlæti í viðskiptum, en til að mynda bannaði hún álagningu vaxta. Skólamennirnir rýndu í kenningu Aristótelesar um réttlæti í viðskiptum og skrifuðu talsvert um kenninguna. Albertus Magnus var sá fyrsti til að setja fram þá hugmynd að virði hagrænna gæða væri bundið í vinnunni sem færi í að framleiða gæðin, og setti hann þar með fram vinnuverðgildiskenninguna sem átti eftir að hafa mikil áhrif á framgang hagfræðinnar í skrifum manna á borð við David Ricardo og Karl Marx. Tómas frá Akvínó taldi að hagræn gæði hefðu náttúrulegt virði en ólíkt Albertus Magnus taldi hann að verðið gæti sveiflast frá náttúrulegu virði sínu ef þarfir fólks fyrir gæðin breyttust. Skólamennirnir skrifuðu bæði um eftirspurnar- og framboðshliðar markaða en ólíkt ríkjandi hagfræðikenningum nútímans litu þeir ekki á markaðsjafnvægi sem samspil þessara tveggja hliða.[3]

Kaupskapar- og búauðgisstefna

[breyta | breyta frumkóða]

Kaupskaparstefna er kenningaskóli og efnahagsstefna sem naut vinsælda meðal Vestur-Evrópuþjóða frá sextándu öld og fram á þá átjándu. Í kaupskaparstefnunni fólst að þjóðir ættu að reyna að selja eins mest af vörum til útlanda og fá sem minnstar vörur til baka en nota vöruskiptajöfnuðinn þess í stað í að safna gulli og öðrum auðmálmum. Talsverður áherslumunur var á milli landa en almennt má segja að kaupskaparmenn hafi viljað gjörnýta alla framleiðsluþætti landsins, banna allan innflutning nema á millistigsvörum sem notaðar eru til framleiðslu á útflutningsvörum og banna útflutning á auðmálmum. Kaupskaparstefnan var hluti af vaxandi þjóðernisstefnu í Vestur-Evrópu á þessu tímabili. Samkvæmt ríkjandi hagfræðikenningum nútímans er meirihlutinn af þeirri efnahagsstefnu sem fylgt var á tímum kaupskaparstefnunnar óæskilegur.[4]

Búauðgisstefna er efnahagskenning sem á rætur að rekja til Frakklands og lítur á hagkerfið sem hringrás sem drifin er áfram af náttúrunni. Búauðgismenn töldu að allur virðisauki ætti sér stað í landbúnaði og að hann væri þannig grundvöllur allrar annarrar efnahagsstarfsemi. Þeir lögðu til breytingar á skattkerfi síns tíma með það að leiðarljósi að auka framleiðni í landbúnaði. Búauðgisstefnan er oft talin vera fyrsta heilsteypta kenningin um gangverk hagkerfisins en líkt og kaupskaparstefnan er hún ekki í samræmi við hagfræðiþekkingu nútímans.[5]

Adam Smith var klassískur hagfræðingur og einn áhrifamesti hagfræðingur allra tíma.

18. og 19. öldin

[breyta | breyta frumkóða]

Klassísk hagfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Hagfræðin sem fræðigrein varð til á 18. öld. Richard Cantillon var með fyrstu mönnum til að skrifa um hagkerfið sem samverkandi heild og ásamt David Hume er hann talinn hafa verið með þeim fyrstu til að lýsa því sambandi peningamagns, veltuhraða og verðlags sem nú heitir peningamagnskenningin. Klassísk hagfræði er notað yfir ákveðinn hóp kenninga sem varð til á 18. og 19. öld. Meðal helstu kenninga sem taldar eru til klassísku hagfræðinnar eru peningamagnskenningin, kenningin um launasjóðinn, fólksfjöldakenning Malthusar og landrentukenningin.

Klassíska tímabilið í hagfræði er yfirleitt talið hefjast með útgáfu bókar Adams Smith Auðlegð þjóðanna árið 1776 en bókin er almennt talin eitt áhrifamesta hagfræðirit allra tíma. Meginkenning Smith var að ósamhæfðar ákvarðanir óháðra einstaklinga, sem hver um sig hugsar aðeins um eigin hag, sé besta leiðin til velferðar í samfélaginu öllu. Smith hafnaði þeirri kenningu kaupskaparstefnunnar að viðskipti einstaklinga eða þjóða feli í sér að einn græði og annar tapi og hélt því þvert á móti fram að allir græði af viðskiptum. Sem boðberi upplýsingarinnar taldi Smith að samfélagslega þróun mætti útskýra út frá náttúrulegum lögmálum sem giltu alltaf og almennt. Hann taldi í því samhengi að hinn frjálsi markaður væri náttúruleg skipan sem kæmist á að öðru jöfnu. Þá taldi hann að eiginhagsmunahyggja, einkaeignarréttur og verkaskipting væru drifkraftar hagvaxtar.[6]

Árið 1798 kom út ritið Ritgerð um lögmál sem stýra mannfjöldanum eftir Thomas Malthus, þar sem hann setti fram þá kenningu að fólksfjöldi vaxi með veldisvexti en að fæðuframleiðsla vaxi línulega og að það leiði til hungursneyðar nema hömlur séu settar á fólksfjölgunina. Malthus taldi að slíkar hömlur væru til staðar í formi hjónabanda, getnaðarvarna og almenns siðgæðis. Því kæmi ekki til hungursneyðar af völdum offjölgunar.[7] David Ricardo taldi að í landbúnaði væru til staðar svokallaðar „innri jaðar-“ og „ytri jaðar“ rentur sem rynnu til landeigenda þegar verð á korni hækkaði og kenning hans um hlutfallslega yfirburði veitti aukinn rökstuðning fyrir þeirri skoðun Adams Smith að verkaskipting væri af hinu góða. Bæði Ricardo og Malthus eru þekktir fyrir ýmis önnur hugtök og kenningar, þar á meðal vinnuverðgildiskenningu Ricardos, járnlög um laun og jafngildiskenningu Ricardos.[8][9]

Ýmsir aðrir hagfræðingar eru taldir til klassíska tímabilsins. Jean-Baptiste Say er þekkstastur fyrir lögmál Say sem segir að heildarframboð sé alltaf jafnt heildareftirspurn. Nassau Senior er þekktur fyrir vísindalega nálgun sína á hagfræðileg álitaefni, fyrir að gera fyrstur hagfræðinga grein fyrir áhrifum tækniframfara á framleiðni og fyrir að líta á vexti sem greiðslu fyrir notkun tíma. John Stuart Mill samræmdi klassíska hagfræði, útskýrði þróun jafnvægisverðs, lýsti tekjudreifingu samfélagsins og útskýrði hlutverk ríkisins í hagkerfinu. Margir klassískir hagfræðingar trúðu á kenningu um launasjóð, en árið 1869 setti Mill fram rökstuddar efasemdir um kenninguna og er það gjarna talið marka enda klassíska tímabilsins í hagfræði.[10]

Sósíalísk hagfræði og marxismi

[breyta | breyta frumkóða]
Karl Marx var upphafsmaður marxisma og einn af upphafsmönnum kommúnisma.

Um aldamótin 1800 setti hinn franski Saint-Simon fram þá kenningu að framþróun þekkingarinnar myndi leiða til stjórnarhátta þar sem samfélaginu væri stjórnað af vísindaráði með það að markmiði að hámarka iðnframleiðslu. Pierre-Joseph Proudhon var á öndverðum meiði; hann er oft talinn hafa verið fyrsti anarkistinn og taldi hann að afnema bæri allt ríkisvald. Báðir voru þeir þó sammála um að hagsmunir einstaklinga í samfélaginu væru í grundvallaratriðum samþættir og að fólki bæri að vinna saman að sameiginlegum markmiðum.[11]

Karl Marx var ásamt samstarfsmanni sínum Friedrich Engels upphafsmaður marxismans og höfðu þeir gríðarleg áhrif á hagþróun víða hvar í heiminum í gegnum áhrif sín á þróun kommúnisma. Hagfræðikenning marxismans kemur hvað skýrast fram í bók Marx Auðmagnið sem kom út í hlutum árin 1867 og 1894. Kenningin er grundvölluð á þýskri söguspeki og gengur út á að framþróun mannlegs samfélags muni ná hápunkti í byltingu þar sem stétt fjármagnseigenda verði vikið frá völdum og stétt verkafólks öðlast yfirráð yfir öllu fjármagni. Samkvæmt marxisma eru samfélagslegar stofnanir á borð við trúarbrögð og stjórnvald grundvölluð á framleiðsluháttum, sér í lagi verkaskiptingu og einkaeignarrétti. Samkvæmt vinnuverðgildiskenningu Marx má rekja allt virði til vinnu verkamannsins; allur mismunur markaðsverðs framleiðslu og vinnulauna sé arðrán af hálfu fjármagnseigandans. Síaukin verkaskipting leiði til firringar sem hljóti að enda í byltingu.[12]

Sósíalískar hagfræðikenningar héldu áfram að gerjast á 20. öld. Oskar Lange og Abba Lerner lýstu sósíalísku og miðstýrðu hagkerfi þar sem ráðstjórn býr til staðgengilsmarkaði fyrir vöru og þjónustu. Í kerfinu væri ríkisfyrirtækjum fyrirskipað að jafna útsöluverð við jaðarkostnað og jafnframt að lágmarka meðalkostnað. Lange taldi að slíkt kerfi væri enn hagkvæmara en markaðsbúskapur; öll vandamál tengd einokun væru sjálfkrafa leyst.[13]

Nýklassísk hagfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Nýklassísk hagfræði er heilsteypt kenning um hagrænt atferli sem snýst um að einstaklingar hámarki nytjar og að fyrirtæki hámarki hagnað með því að jafna jaðarkostnað og jaðarábata. Ólíkt klassískri hagfræði, þar sem virði hluta fer eftir framleiðslukostnaði, er í nýklassískri hagfræði gert ráð fyrir að virði hluta sé huglægt og að markaðsverð hagrænna gæða fari eftir samspili framboðs og eftirspurnar. Jaðarframleiðni, jaðarnytjar, hagræn rökvísi, fórnarkostnaður og Pareto-hagkvæmni eru önnur mikilvæg hugtök í nýklassískri hagfræði.[14][15]

Nýklassísk hagfræði varð til í mörgum skrefum á nítjándu öld og í byrjun þeirrar tuttugustu. Árið 1838 birti franski stærðfræðingurinn A.A. Cournot líkan sitt um hagnaðarhámörkun einkasala og nýtur það viðurkenningar enn þann dag í dag. Verkfræðingurinn Jules Dupuit var sá fyrsti til að lýsa eftirspurnarferli sem byggir á jaðarnytjum og hafði framsæknar hugmyndir um kostnaðar- og ábatagreiningu. Á seinni hluta átjándu aldar átti sér stað svökölluð "jaðarbylting" þegar ýmsir hagfræðingar komu á svipuðum tíma fram með kenningar um jöfnun jaðarnytja og jaðarkostnaðar. Carl Menger og W.S. Jevons lýstu því hvernig einstaklingar ráðstafa tekjum sínum þannig að jaðarnyt allra gæða séu jöfn. Jevons var jafnframt sá fyrsti til að aðgreina með skýrum hætti á milli jaðarnytja og heildarnytja. Léon Walras bjó til fyrsta heildarjafnvægislíkanið í hagfræði og Eugen Böhm-Bawerk setti fram öndvegiskenningar um vexti og fjármagn.[16]

Joan Robinson endurbætti nýklassískar kenningar um einokun og var með helstu fylgismönnum John Maynard Keynes.

Í bók sinni Principles of Economics sem kom út árið 1890 samræmdi hinn enski hagfræðingur Alfred Marshall nýklassískar kenningar um samkeppni og markaðsjafnvægi. Líkan hans um samspil framboðs og eftirspurnar til langs og skamms tíma, um kostnaðarferla fyrirtækja og um jafnvægi í fullkominni samkeppni eru með þekktustu og mest notuðu niðurstöðum í hagfræði. Marshall og nemandi hans A.C. Pigou lýstu grundvallarhugtökum í velferðarhagfræði, þ.e. neytenda- og framleiðendaábata og ytri áhrifum.[17] Á þriðja og fjórða áratug 20. aldar tóku ýmsir hagfræðingar þátt í að bæta fyrri kenningar um markaði með því að lýsa markaðsformum sem höfðu eiginleika bæði einokunar og samkeppni. Edward H. Chamberlin lýsti líkaninu um einkasölusamkeppni og Joan Robinson endurbætti fyrri kenningar Cournot og Dupuit um einkasölu og verðmismunun.[18]

Þróun þjóðhagfræði á 20. öld

[breyta | breyta frumkóða]

Þjóðhagfræði varð til sem sérstök undirgrein hagfræði í byrjun 20. aldar. Irving Fisher endurbætti peningamagnskenninguna og hinn sænski Knut Wicksell skrifaði um samspil heildarframboðs og heildareftirspurnar, auk þess að lýsa ferlinu þar sem aukning peningamagns veldur aukinni eftirspurn eftir vöru og þjónustu. Á fjórða áratug 20. aldar olli John Maynard Keynes straumhvörfum í hagfræði með bók sinni Almenna kenningin um atvinnu, vexti og peninga. Bókinni var ætlað að útskýra hvers vegna kreppan mikla hefði orðið jafn djúp og raunin var og hvernig þjóðir heims ættu að bregðast við henni. Keynes hafnaði hinu svokallaða lögmáli Say sem segir að verðlag muni ávallt jafna heildarframboð og heildareftirspurn, og taldi að jafnvel þó hagkerfið væri í jafnvægi gæti viðhaldist töluvert atvinnuleysi vegna þess að nafnlaun væru tregbreytanleg. Meginniðurstaða Keynes var að hið frjálsa markaðshagkerfi gæti ekki komist úr kreppunni á eigin spýtur; ríkisinngrip væru nauðsynleg. Meðal mikilvægra hugtaka úr smiðju Keynes eru fjárfestingarmargfaldari, jaðarneysluhneigð og lausafjárgildra. Fylgismenn Keynes þróuðu kenningar hans í ýmsar áttir. John Hicks og Albert Hansen þróuðu IS-LM líkanið sem lýsir samspili peningamarkaðar og vörumarkaðar. Þar er meiri áhersla lögð á peningamálastefnu en í upprunalegum kenningum Keynes. Póstkeynesismi hélt hins vegar fast í þá skoðun Keynes að ríkisfjármál væru mikilvægasta tæki hagstjórnar.[19]

Árið 1956 setti Chicago-hagfræðingurinn Milton Friedman fram endurbætta útgáfu af peningamagnsjöfnunni þar sem áhersla er lögð á langtímavæntingar um tekjur og verðlag og árið 1968 setti hann fram kenningu um lóðrétta Philipskúrfu. Niðurstaða Friedman var að aukning peningamagns muni ekki leiða til aukningar framleiðslu til langs tíma heldur muni einungis valda varanlegri hækkun verðbólgu. Kenningar hans nutu vaxandi viðurkenningar á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar þegar atvinnuleysi og verðbólga jukust samtímis víða á Vesturlöndum. Ásamt öðrum fylgismönnum frjálshyggju lagði Friedman til að ríkið minnki afskipti sín af hagkerfinu til þess að stuðla að aukinni skilvirkni.[20] Nútíma þjóðhagfræði byggir bæði á keynesískum og nýklassískum grunni. Þjóðhagfræðingar reyna að spá fyrir um þróun efnahagsstærða með flóknum tölfræðilegum líkönum sem byggja meðal annars á forsendu um ræðar vændir.[21]

Aðrir straumar á 20. öld

[breyta | breyta frumkóða]


Austurrísk hagfræði er kenningarskóli sem véfengir aðferðafræði hefðbundinnar, nýklassískrar hagfræði. Austurrísk hagfræði leggur áherslu á sjónarhorn einstaklingsins frekar en hópsins og hafnar stærðfræðilegum og raunvísindalegum nálgunum á hagfræðileg álitaefni. Austurrískir hagfræðingar telja ekki einungis að virði sé huglægt heldur sé kostnaður það einnig. Fórnarkostnaður, sem er mikilvægt hugtak í nútímahagfræði, á þannig rætur sínar að rekja til austurríska hagfræðingsins Friedrich von Wieser. Ludwig von Mises fjallaði um peningamál frá sjónarhóli einstaklingsins og um áhrif breytinga í peningaframboði á eftirspurn. F.A. Hayek bætti ofan á kenningar Mises og lýsti austurrísku kenningunni um hagsveiflur, sem byggist á breytingum í samsetningu heildarframleiðslu. Ásamt Hayek var Joseph Schumpeter brautryðjandi í að lýsa því hvernig verðkerfið miðlar upplýsingum um hagkerfið. Schumpeter lýsti jafnframt því hlutverki samkeppnismarkaða að vera vettvangur frumkvöðla til þess að stuðla að framþróun samfélagsins.[22]

Stofnanahagfræði er í senn undirgrein hagfræði og sjálfstæður kenningaskóli. Stofnanahagfræði á rætur sínar að rekja til söguhyggju í hagfræði sem naut nokkurra vinsælda á 19. öld, sér í lagi í Þýskalandi. Báðar þessar nálganir leitast við að skilja hvernig þjóðfélagsstofnanir hafa áhrif á hagrænt atferli einstaklinga. Hinn bandaríski hagfræðingur Thorstein Veblen, sem skrifaði í byrjun 20. aldar, lýsti því hvernig kapítalískir framleiðsluhættir ýttu undir neysluhyggju og spáði vaxandi ítökum viðskiptalífsins í stjórnmálum.[23] Gunnar Myrdal og Gary Becker skrifuðu um hagrænar ástæður og afleiðingar kynþáttamismununar í Bandaríkjunum, og Becker fjallaði jafnframt um hagræna eiginleika fjölskyldunnar sem stofnunar.[24] Elinor Ostrom benti á að skilvirkar stofnanir geti með hagkvæmum hætti séð um ráðstöfun sameiginlegra náttúruauðlinda, þvert á spár nýklassískrar hagfræði.[25]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Ekelund og Hébert (2007): 8-22.
  2. Ekelund og Hébert (2007): 22-25.
  3. Ekelund og Hébert (2007): 26-35.
  4. Ekelund og Hébert (2007): 44-61.
  5. Ekelund og Hébert (2007): 77-84.
  6. Ekelund og Hébert (2007):101-122.
  7. Þorbergur Þórsson, „Hver var Thomas Malthus og fyrir hvað er hann helst þekktur?“
  8. Ekelund og Hébert (2007):143-150.
  9. Þorbergur Þórsson, „Hvert var framlag Davids Ricardos til hagfræðinnar?“
  10. Ekelund og Hébert (2007): 155-182.
  11. Ekelund og Hébert (2007):220-223, 231-234.
  12. Ekelund og Hébert (2007): 243-260.
  13. Ekelund og Hébert (2007): 528.
  14. E. Roy Weintraub. Neoclassical Economics.
  15. Moshe Adler. Neoclassical economics.
  16. Ekelund og Hébert (2007):267-335, 381-392.
  17. Ekelund og Hébert (2007):344-376.
  18. Ekelund og Hébert (2007): 452-468.
  19. Ekelund og Hébert (2007): 471-499.
  20. Ekelund og Hébert (2007): 500-508.
  21. Milani, F. og Rajbhandari, A. Expectation formation and monetary DSGE models: beyond the rational expectations paradigm.
  22. Ekelund og Hébert (2007): 512-526.
  23. Ekelund og Hébert (2007):425-439.
  24. Ekelund og Hébert (2007): 599.
  25. On the Commons. Elinor Ostrom's 8 Principles for Managing A Commmons [sic].
  • Ekelund, Robert B. og Hébert, Robert F (2007). A History of Economic Theory and Method. Waveland Press. ISBN 978-1-57766-486-4.
  • E. Roy Weintraub. „Neoclassical economics“.
  • Moshe Adler. „Neoclassical economics“ (DOC-skjal).
  • Milani, F og Rajbhandari, A. „Expectation formation and monetary DSGE models: beyond the rational expectations paradigm“ (PDF-skjal).
  • On the Commons. „Elinor Ostrom's 8 Principles for Managing A Commmons [sic]“.
  • Þorbergur Þórsson. „Hver var Thomas Malthus og fyrir hvað er hann helst þekktur?“. Vísindavefurinn 20.4.2011. http://visindavefur.is/?id=59467. (Skoðað 14.5.2014).
  • Þorbergur Þórsson. „Hvert var framlag Davids Ricardos til hagfræðinnar?“. Vísindavefurinn 13.4.2011. http://visindavefur.is/?id=59409. (Skoðað 14.5.2014).