Sumarólympíuleikarnir 2028
Sumarólympíuleikarnir 2028 eru 34. sumarólympíuleikarnir. Þeir fara fram í Los Angeles í Bandaríkjunum frá 21. júlí til 6. ágúst 2028. Þetta eru þriðju sumarólympíuleikarnir sem fara fram í Los Angeles, en borgin hefur áður hýst ólympíuleika 1932 og 1984.
Aðdragandi og skipulagning
[breyta | breyta frumkóða]Auk Los Angeles sóttust fjórar aðrar borgir eftir að halda ÓL 2024: Hamborg, Búdapest, Róm og París. Með tímanum heltust borgirnar úr lestinni ein af annarri. Hamborg dró umsókn sína til baka þann 29. nóvember 2015 í kjölfar íbúakosningar. Rómarborg fylgdi í kjölfarið þann 21. septmeber 2016 á grunni fjárhagserfiðleika. Þann 22. febrúar 2017 ákvað Búdapest að falla frá umsókn sinni eftir að andstæðingar mótshaldsins höfðu náð að safna nægum fjölda undirskrifta til að knýja fram íbúakosningu.
Þegar ljóst var að valið stæði bara milli tveggja borga ákvað Ólympíunefndin að ákveða gestgjafa fyrir leikana 2024 og 2028 um leið. Í lok júli 2017 var ákveðið að úthluta París fyrri leikunum en Los Angeles þeim síðari.