Forsetar Bandaríkjanna
En nákvæmlega hver eru völd forsetans?
[breyta]Völd forseta BNA virðast við fyrstu sýn fremur ótakmörkuð en í raun eru þau fremur bundin. Samkvæmt stjórnarskránni hefur forsetinn neitunarvald. Fyrstu ár ríkisins var það meiningin að þetta neitunarvald ætti einungis að vera notað sem neyðarúrræði. Rétt eins og á Íslandi (þið munið eflaust eftir seinasta sumri) þá liðu 50 ár áður en það var notað í fyrsta sinn. Tilgangur þess var að vernda stjórnarskránna. Sá forseti sem tók að nota það fyrst, notaði það óspart og víkkaði þannig út völd forsetans. Andrew Jackson gerði neitunarvaldið að einhverju sem þingmenn öldungardeildarinnar þurftu að gera ráð fyrir að berjast við. Það var aftur á móti á tímum John Tylers sem það gerðist í fyrsta sinn að þingið hunsaði neitunarvaldið. Aðalvöld forsetans felast í því að skipa fólk í embætti, hann stýrir ekki hversu mikla peninga embættin fá heldur gerir þingið það. Það hefur komið fyrir að flokkur forsetans sé í minnihluta á þingi. T.d. voru Repúblikanar í meirihluta á þingi mestallan þann tíma sem Clinton var við völd. Þannig að þingið veitir ekki fé endilega í þá hluti sem forsetinn óskar helst eftir. Aftur á móti gæti forsetinn neitað að samþykkja fjármálafrumvarpið, sem var það sem kom fyrir á tímum Clintons, Þar sem völd forsetans eru mest, er á utanríkissviðinu. Lagalega séð þarf forseti alltaf stuðning þingsins til að lýsa yfir stríði, en hann er yfirmaður heraflans og getur því gert árás á önnur lönd áður en þingið samþykkir það. Dæmi um það er Svínaflóaárásin, þar sem John F. Kennedy gerði tilraun til að framkvæma valdarán á Kúbu. (Að vísu fóru engir Bandarískir hermenn inn á Kúbu opinberlega, heldur voru þetta allt saman skæruliðar frá miðameríkulöndum og flóttamenn frá Kúbu, en þó var um hernaðaraðgerð að ræða sem stuðning þingsins þurfti ekki í). Einnig sér forsetinn um að útnefna hæstarréttardómara sem eru talsverð völd. T.d. var einn meginmunurinn á stefnu Kerrys og Bush fólgin í því að Kerry lýsti yfir að hann myndi aðeins útnefna hæstarréttardómara sem hlynntir væru fóstureyðingum, en Bush ætlaði aðeins að útnefna þá sem væru á móti þeim. Þetta skiptir miklu máli þar sem dómar hæstarréttar eru lokaúrskurðurinn. Í seinni köfæum kemur m.a. í ljós að hæstiréttur skipti miklu máli í baráttunni fyrir frelsun þrælanna.
George Washington
[breyta]George Washington var fæddur 1732, þegar austurströnd BNA var á valdi Bretlands. Faðir hans dó þegar hann var ellefu ára og George hlaut aldrei meiri menntun heldur en grunnskólamenntun, þrátt fyrir að sýna hæfileika á sviði stærðfræði.
Við megum ekki halda að hann hafi verið fátækur, fjölskyldan var sæmilega efnuð en þó ekki rík. George vann hjá Lord Fairfax (afar efnuðum plantekrubúa í Virginíu) þegar hann var sextán ára við það hafa umsjón með garði hans.
Seinna þegar eldri bróðir George lést, þá erfði hann frá honum tóbaksplantekru og átti hana til dauðadags (sagði ykkur að hann væri ekki fátækur). En stuttu eftir lát bróður hans var George kallaður í breska herinn og barðist gegn Frökkum.
George vann nokkra frækna sigra á Frökkum þó að til að byrja með hafi stríðið gengið fremur illa. (Sjö ára stríðin enduðu þó með sigri Breta og Prússa, á Frökkum, Austurríkismönnum, Saxlendingum, Rússum og Spánverjum sem verður að teljast nokkuð gott).
Hershöfðingi
[breyta]Að stríðinu loknu var litið á George sem nokkurs konar hetju. Miðað við reynslu hans úr stríðinu er ekki skrítið að hann skyldi hafa verið valinn síðar meir af uppreisnarmönnunum til að leiða her þeirra.
Ég ætla ekki að rekja frelsisstríðið og sögu þess eða ástæður. George tókst að sigra ofurefli Breta með herkænsku, hermenn hans voru mun tryggari gagnvart honum heldur en þeir bresku voru gagnvart sínum hershöfðingjum, sennilega af því að þeim fannst þeir hafa verðugan málstað. BNA menn græddu líka á því að berjast á heimavelli og Bretar sem ekki þekktu til aðstæðna urðu oft klunnalegir í hernaðaráætlunum. Einnig græddu BNA menn á biturð Frakka yfir því að hafa misst Kanada til Breta og hjálp þeirra kom að miklu gagni. (Það væri hollt fyrir núverandi stjórnvöld að muna að ekki er nóg með að Frakkar hafi hjálpað þeim í frelsisstríðinu heldur gáfu þeir þeim frelsisstyttuna líka, rétt eins og Frakkar ættu að muna að BNA menn frelsuðu þá frá Nasistum og veittu þeim Marshallaðstoðina. „Why can't we all just be friends?“).
Forseti
[breyta]Margir af ofurstum og hermönnum sem höfðu barist með Washington vildu að hann yrði konungur. Það leist Washington guði sé lof ekki vel á, þrátt fyrir að hann hefði sennilega vel getað orðið konungur að loknum sigrinum á Bretum. Hann varð þó seinna forseti eftir að hafa verið kallaður á þing 1787 og það sem hann gerði sem forseti markaði mjög djúp spor í stjórnkerfi BNA. Það er meðal annars honum að þakka að enginn forseti má vera lengur en tvö kjörtímabil. Hann hafði lítinn áhuga á að bjóða sig aftur fram að loknu sínu fyrsta kjörtímabili, en það má segja að sökum fjölda áskoranna hafi hann látið undan. George barðist ávallt gagnvart myndunum pólitískra fylkinga, sem hann taldi vera skaðlegar gagnvart almenningi. Í stjórn sinni hafði hann marga sem voru ósammála. Meirihluti þingmanna voru "Federalists", og vildu sterka miðstýringu. Svokallaðir "Democratic-Republicans" undir forystu Thomas Jeffersons vildu takmarka völd ríkisins eins mikið og mögulegt væri.
Forystumaður „Federalista“, Alexander Hamilton, og forystumaður „Democratic-Republicans“, Thomas Jefferson, sátu báðir í stjórn Washingtons sem taldi mikilvægt að viðhalda jafnvægi milli beggja fylkinga þrátt fyrir að hallast eilítið meira yfir á væng "Federalista".
Washington lýsti yfir hlutleysi 1793 í stríði Breta og Frakka sem þá hófst, og síðan þá hafa forsetar haft nánast ótakmörkuð völd á sviði utanríkismála.
Þegar bændur í Vestur Pennsylvaníu gerðu uppreisn til að mótmæla whiskýsköttum, þá bældi Washington það niður með valdi. (Sem er sérkennilegt í sjálfu sér, því á sínum tíma gerði Washington ásamt öðrum uppreisn meðal annars út af of háum sköttum).
Að undanskildu Vestur Pennsylvaníu málinu finnst mér Washington hafa staðið sig vel sem forseti. Það eru fáir pólitíkusar sem reyna að takmarka sín eigin völd með almannahagsmuni í fyrirrúmi. Það er afar sjaldgæft verð ég að segja.
Federalistar taka völdin
[breyta]Árið 1797 hætti George Washington sem forseti. Hann lést þremur árum síðar. Sá sem tók við af honum hét John Adams. John Adams hafði verið varaforseti George, þar áður hafði hann verið sendiherra víðsvegar í Evrópu á tímabilinu 1778-1788, en þá hafði enginn forseti verið yfir hinum þrettán fylkjum BNA heldur þing stýrt ríkinu öllu.
John Adams var Federalisti. Federalistar voru flokkur sem voru leiddir af Alexander Hamilton eins og ég minntist á í fyrri greininni. Þeir vildu sterka ríkisstjórn með mikla miðsstýringu. Þeir nutu mikils stuðnings landeigenda, verslunarmanna og verksmiðjueigenda. Þeir vildu líka sterk tengsl við England. (Sem er svolítið skrítið miðað við að Federalistar höfðu barist gegn Bretum, en sennilega hafa flestir BNA manna sem þá voru nær allir af breskum ættum litið á Bretland sem nokkurskonar föðurland og því ekki viljað slíta tengslum alveg).
John Adams leist illa á þróunina í frönsku byltingunni og litlu munaði að stríð brytist út á milli BNA og Frakka, svo fjandsamur var hann frönsku ríkisstjórninni.
Sérkennileg varaforsetalög
[breyta]Á þessum tíma voru lög BNA þannig að sá sem fengi næstmesta fylgið í forsetakosningum yrði varaforseti. Þannig varð Thomas Jeffersson formaður flokks sem hafði hlotið nafnið Repúblikanar varaforseti John Adams, þrátt fyrir að vera stjórnarandstæðingur.
Ekki rugla saman þessum Repúblikana flokki saman við þann sem er í dag. Repúblikana flokkurinn sem er í dag var stofnaður um miðja 19. öld. Í fyrri grein minni tala ég um Democratic-Republicans, þetta eru sömu aðilar, einungis búnir að stytta heiti flokksins.
Á kjörtímabili John Adams komu upp margar deilur. Repúblikana flokkurinn mótmælti því að Federalistar hækkuðu skatta. Einnig settu Federalistar á ströng innflytjenda lög en flestir innflytjendur gerðust kjósendur Repúblikana. Þetta voru Repúblikanar að sjálfsögðu ekki sáttir við.
Þegar ofan á bættust skattahækkanir brutust út uppreisnir í Pennsylvaníu. Kentucky og Virginía hótuðu að segja sig úr sambandinu og John Adams átti á sama tíma í deilum innan flokksins við Alexander Hamilton um stefnuna gagnvart Frakklandi, en Hamilton var ekki sáttur við það að BNA væru búin að lýsa óbeint sjóstríði á hendur Frökkum sem þrátt fyrir allt höfðu jú aðstoðað þá í sjálfsstæðisstríðinu.
Það kemur því sennilega lítið á óvart að John Adams var ekki endurkjörinn árið 1800, og Thomas Jefferson sem var yfir Repúblikönum valtaði yfir hann.
Thomas Jefferson
[breyta]Ég er sjálfur, persónulega örlítill aðdáandi Thomas Jefferson. En ég ætla að reyna að skrifa hlutlaust um hann.
Thomas var höfundur sjálfsstæðisyfirlýsingarinnar. Hann var einn af aðalhugmyndasmiðum uppreisnarmanna. Þegar hann svo varð einn af þingmönnum Virginíufylkis lagði hann fram lagafrumvarp þar sem kveðið var á um afnám erfðaréttar elsta sonarins. Héðan af myndu öll systkini erfa jafnt nema erfðaskrá taki annað fram. Þegar stríð BNA fyrir sjálfsstæði hófst varð hann fylkisstjóri Virginíu fylkis og slapp tvívegis naumlega frá því að vera handsamaður af Bretum meðan átök stóðu á. (Hann var seinna á ferlinum ásakaður um að vera heigull, því hann varð ekki eftir til að berjast gegn Bretum heldur flúði). Hann var sendiherra BNA í Frakklandi eftir stríðið, og sennilega útskýrir það að hluta til andstöðu hans við stríð gegn Frakklandi síðar.
Þegar Thomas Jefferson var beðinn um að samþykkja stjórnarskrá BNA var hann í vafa. Hann vildi ekki fá sterka ríkisstjórn eins og var lýst í stjórnarskránni, sem eginlega var samin af Federalistum. (Jefferson var alltaf svolítill anarkisti í sér). Hann samþykkti þó stjórnarskrána með einu skilyrði: The Bill of Rights.
Thomas Jefferson samdi The Bill Of Rights, sem eru í stuttu máli fyrstu tíu viðaukar stjórnarskrárinnar. Thomas krafðist þess að BNA hefði málfrelsi, trúfrelsi og fundafrelsi. Þetta neyddust Federalistar til að samþykkja því Thomas var afar vinsæll í Virginíu (enda fyrrum fylkisstjóri þess), stærsta fylkinu á þeim tíma. Það má að vissu leyti kenna Jefferson um byssuvesenið í könum, því að í þessum tíu viðbætum (ten amendments) gengur 2. viðbótin út á frelsi til þess að eiga byssur.[1]
Thomas Jefferson sem forseti
[breyta]Thomas Jefferson var utanríkisráðherra (secretary of state) á tímum Washingtons, en lenti í deilum við Alexander Hamilton fjármálaráðherra (secretary of treasure) um hvort að það ætti að stofna landsbanka. Thomas var á móti ríkisreknum banka en Alexander studdi hann. Þessar deilur leiddu til þess að 1793 sagði Thomas upp starfi sínu. 1796 Bauð hann sig fram á móti John Adams og endaði sem varaforseti, árið 1800 tókst honum þó að vinna sigur.
Fyrra kjörtímabil Jefferson var afar rólegt. Hann skar niður í herkvaðningu, einbeitti sér að því að borga upp skuldir ríkisins og lækkaði skatta. Þetta gerði hann óhemju vinsælan. Einnig þá tókst honum að koma því í gegn Federalistum til gremju, að aðskilja framkvæmdavald og dómsstóla. En þrátt fyrir að Jefferson væri forseti voru Federalistar en með tögl, haldir og ítök víðsvegar í framkvæmda og dómsvaldinu.
1804 vann Jefferson stórsigur í kosningum. En á næsta kjörtímabili áttu ýmis vandamál eftir að koma upp. Meðal annars fyrstu stríðsátök í sögu BNA að frelsisstríðinu undanskildu.
Seinna kjörtímabil Thomas Jeffersons
[breyta]Á fyrra kjörtímabili sínu hafði Thomas aðskilið dóms- og framkvæmdavald, dregið úr sköttum og úr hernaðaruppbyggingu. John Adams hafði haft mikinn áhuga á hernaðaruppbyggingu, en Thomas verið á móti henni. Á þessu kjörtímabili átti hann eftir að skipta um skoðun og hallast yfir á málstað Federalista hvað varðar alla veganna utanríkismál. (Þeir sem vilja fá útskýringar á hverjir Federalistar og Repúblikanar eru verða að lesa fyrri greinar).
Á fyrra kjörtímabili hafði efnahagur BNA blómstrað sem aldrei fyrr, sem má þakka t.d. lágum sköttum og iðnvæðingu. En utanríkisaðgerðir Thomasar áttu eftir að breyta ýmsu. Bresk herskip höfðu tekið bandaríska kaupmenn sem sigldu á Atlantshafa fasta og þvingað til þess að ganga í breska herinn og taka þátt í stríðinu gegn Frökkum. Stríðið sem var á milli Breta og Frakka var farið að hafa alvarleg áhrif á utanríkisviðskipti BNA og sér í lagi eftir að Thomas lýsti viðskiptabanni á bæði Frakkland og Bretland til að andmæla stríðinu. Bandarísk skip komust ekki í hafnir á meginlandi til þess að versla við lönd undir stjórn Napóleons. (Með öðrum orðum nærri allt meginland Evrópu).
Á sama tíma ákvað Jefferson að hætta að borga mútur til Barbarísins í Trípolí. Á þessum tíma í byrjun 19. aldar hafði sá siður tíðkast í nokkur hundruð ár að bjarga bandarískum sæförum úr gíslingu sjóræningja frá norðurströnd afríku með því að múta sjóræningjunum.
Norðurafrískir sjóræningjar er vandamál sem við ættum að kannast við úr Íslandssögunni. Þeir sem rændu Tyrkjaguddu voru þó undir forystu Hollendinga og komu frá Alsír. Þessir sjóræningjar voru frá Líbýu, sem er reyndar næsta land við hliðin á.
En Thomas Jefferson ákvað að lýsa stríði á hendur sjóráni. Hann sendi bandaríska flotann út á miðjarðarhaf og réðst á Líbýu. (Ég verð að játa að þegar ég las um þetta í bók um bandaríska sögu þá kom þetta mér mjög á óvart, en því miður fellur þetta stríð í skuggan á Napóleonsstyrjöldunum, enda er það mjög smátt í samanburði).
Þessar hernaðaraðgerðir kostuðu Jefferson árás á Boston og neyddu hann til þess að styrkja Bandaríska flotann og hækka skatta. Á móti þá batt hann enda á sjórán.
Ég skil ekki afhverju þetta stríð er aldrei borið saman við stríð Bush gegn hryðjuverkum, því í eðli sínu eru þau ekki hrikalega ólík. (Fyrir utan það að Jefferson er hlynntur málfrelsi og mannréttindum og Bush, tja ...þið afsakið þetta pólitíska innskot, ég ætla að reyna að vera hlutlaus restina af greininni).
Hræsnarinn Thomas Jefferson
[breyta]Það var Thomas Jefferson sem keypti Louisiana af Frökkum og tvöfaldaði stærð BNA fyrir 15 milljónir dollara. Hann leyfði Lewis, sem var hernaðarráðgjafi í Hvíta húsinu að fara af stað með könnunarleiðangur yfir svæðin, betur þekkt sem The Lewis & Clark expedition. Sjálfur var Thomas efins um kaupin á Louisiana því hann var ekki viss um að það væri hlutverk ríkisstjórnarinnar að kaupa landsvæði. Það má bæta því við að þessi kaup áttu eftir að kosta marga indíána lífið, þegar landnemar tóku að flæða yfir svæðin.
Thomas Jefferson hélt því oft á lofti að allir menn væru jafnir og var opinberlega á móti þrælahaldi. Þó átti hann fullt af þrælum heima á plantekrunni sinni sem er svartur blettur á ferli manns sem kom trúfrelsi og málfrelsi inn í stjórnarskránna.
James Madison 4. forseti BNA
[breyta]James Madison var sonur ríkra plantekrueigenda í Virginíu rétt eins og Thomas Jefferson. Hann var góður vinur Jeffersons og þeir stóðu saman í baráttunni fyrir "The bill of rights" sem hægt er að lesa um í 2. grein.
Madison var þó Federalist og saman með Alexander Hamilton mótaði hann stefnu fyrir flokkinn sem barðist fyrir sterkri miðstýringu og voldugri ríkisstjórn. Hann var einn af aðalstuðningsmönnum Washingtons, og átti stóran þátt í tilurð forsetaembættisins. Einnig var hann nefndur faðir stjórnarskráarinnar því hún er að mestu talin hans höfundarverk.
En á þeim tímapunkti sem Washington fór að verða meiri Federalisti og meira sammála Alexander og James um það að ríkisstjórnin ætti að hafa meiri völd og áhrif tók James að efast um þessa stefnu. Hann tók að líta á það þannig að ríkisstjórnin ætti ekki að styrkja iðnað eða verslun fram yfir landbúnað eða slíka hluti og gekk því yfir í stjórnarandstöðuna og í Repúblikanaflokk, Thomas Jefferson. Sú ákvörðun átti eftir að gera hann að utanríkisráðherra (secretary of state) á valdatíma Jefferson og aðalsamningarmanninum í Louisiana kaupunum.
Árið 1808 varð hann svo forsetaefni Repúblikana og vann kosningarnar.
Kosningabaráttan
[breyta]Kosningabaráttan var þó tvísýn. Viðskiptabannið á Bretland og Frakkland hafði lagt efnahag BNA í rúst. Jefferson hafði aukið herkvaðningu og skatta andstætt kosningaloforðum. Og ekki bara það, heldur þá skiptist Repúblikanaflokkurinn í tvennt, helmingur þeirra studdi George Clinton til forseta embættis. (Skondið nafn miðað við tvo seinustu forseta BNA). Ekki nóg með það heldur hótaði eitt fylkjanna, Nýja England að segja sig úr ríkjasambandinu.
Öllum að óvörum þá burstaði James Madison kosningarnar. Federalistar voru í algjörum minnihluta og þrátt fyrir Repúblikanar væru tvískiptir þá hlutu báðir flokkshelmingur í hvoru lagi meira en þeir.
James Madison varð forseti og George Clinton varð varaforseti.
Kjörtímabilið 1808-1812 var tiltölulega tíðindalaust, engin tíðindi áttu sér stað sem voru "söguleg" alla veganna ekki í utanríkismálum. En á meðan því stóð magnaðist spenna milli BNA og Breta. 15 Dögum fyrir kosningar fékk Madison stuðning þingsins fyrir stríði gegn Bretlandi. BNA menn voru sannfærðir um að Bretar væru svo veikburða að þeir gætu ekki svarað fyrir sig og að Kanada yrði innan skamms frelsað og innlimað í Bandaríkin. Þetta átti ekki eftir að fara alveg eins og þeir höfðu hugsað sér.
Seinna kjörtímabil Madison
[breyta]Stríðið 1812
[breyta]Eins og ávallt gerist í stríðum þá linnir gagnrýni á ráðamenn og þjóðin þjappast saman. Repúblikanaflokkurinn (sem ég minni á að er ekki sá sami og er til í dag) sameinaðist um forsetann og það má segja að þetta hafi gilt um alla þjóðina. Í raun má rekja upphaf sterkrar þjóðernishyggju Bandaríkjanna til þessa stríðs, fram af því höfðu oft fylki hótað að segja sig úr sambandinu eða deilur staðið á um stjórnarskrána. En þetta batt enda á slíkar deilur. (Í bili).
Federalistar (sjá fyrri greinar) gerðu eins og allir aðrir stjórnarandstöðuflokkar myndu gera. Þeir hófu að gagnrýna stríðið af mikilli hörku. Það leiddi til algjörs vinsældahruns á flokknum, fólk tók að líta á þá sem föðurlandssvikara. Í fyrsta sinn í bandarískri sögu fór fólk að vera uppnefnt “unpatriotic” og slíkum nöfnum. Að vísu má ekki gleyma að sjálfsstæðisbaráttuni voru þeir sem studdu England líka litnir hornauga, tjargaðir og fjaðurklæddir.
Stríðið gekk þó alls ekki vel. Madison hafði búist við að Bretar myndu láta undan sökum þess að stríðið gegn Frökkum var að taka sinn toll. Þvert á móti gekk Bretum óhemju vel í stríðinu. Hin tiltölulega nýstofnaða Washington borg varð meira að segja hertekin og hvíta húsið brennt til grunna.
Það má segja að BNA menn hafi sloppið með skrekkinn, að sjálfsögðu túlkuðu Repúblikanar og Madison þetta sem algjöran sigur, en í raun tókst þeim bara rétt svo að komast undan algjörum ósigri. En þeir unnu þó sigur hvað almenningsálitið varðar, því Federalistar urðu óhemju óvinsælir fyrir gagnrýni á stríðið.
Hér er stutt lýsing á meginatriðum stríðsins og ástæðum.
- Viðskiptabannið Desember 1807. Washington, D.C. Jefferson reynir að miðla málum og þvinga Breta til að hætta afskiptum af skipum BNA, en aðgerðir hans leiða til kreppu. (Sjá grein 3)
- „Stríðshaukar” kjörnir inn á þing 1810 U.S. Calhoun, Clay, og aðrir þingmenn sem eru þreyttir á „breskum móðgunum” og „nærveru indíána” kjörnir á þing.
- Bardaginn við Tippecanoe. 1811 Ohio River Valley. Bróðir Tecumseh, (indíánahöfðinginn, spámaðurinn) leiðir 1000 manna árás á bandaríska hershöfðingjann Harrison. (Þessir Indíánar eru mikilvægir fyrir framvindu stríðsins því seinna verður sjálfur Tecumseh bandamaður Breta).
- Þingið lýsir yfir stuðningi við stríðsáætlun Madisons 18 júní, 1812. Washington, D.C. Undir þrýstingi frá „stríðshaukum” leggur Madison fram beiðni til stríðsyfirlýsingar. Allir Federalistar mótmæla.
- Bretar ná Mackinac virki 16. ágúst, 1812, Michigan. Bandarískt virki fellur í hendur Breta.
- Innrásinn inn í Kanada 1812. Landamæri BNA og Kanada. Bandaríkin gera þrjár tilraunir til þess að hernema Kanada, allar mistakast.
- Stjórnarskráin vs. Guerriere 1812, Atlantshafið
- Herskip BNA vinna sigur á breskum herskipum. (Þetta eru skipanöfn: Stjórnarskráin og Guerriere).
- Orustan við Frenchtown í janúar 1813, Michigan.
- Kentucky sveitum tekst að halda breskum sveitum frá. Bandarískir eftirlifendur slátraðir í „Raisin River massacre”.
- Orustan við York (Toronto) í príl 1813. Toronto, Kanada.
- BNA menn ná valdi á stóru fljótavötnunum og brenna York (Toronto). Bretar svara með árás á Washington sem einnig er brennd ári síðar. (Sjá þriggja skrefa áætlun).
- Orustan við Erie vatn í september 1813. Put-in-Bay. Bresk sjóárás stöðvuð af Kaptein Perry.
- Orustan við Thames í október 1813. Ontario, Kanada. Tecumseh drepinn af bandarískum hermönnum.
- Orustan Horseshoe Bend í mars 1814. Mississippi Territory. Andrew Jackson sigrar „Creek Indians”.
- Breska þriggja skrefa áætlunin af innrás í BNA: Chesapeake Bay, Lake Champlain, & munnur Missisippi fljóts, 1814. Washington, D.C. Bretar brenna höfuðborgina, her þeirra er stöðvaður við Baltimore.
- Orustan við Plattsburg í september 1814. Lake Champlain. BNA menn tryggja landamæri sín í norðri með sigri gegn stærri breskum her.
- Hartford ráðstefnan 15. desember 1814. Hartford, Connecticut. Federalistar ræða úrsögn úr BNA. Þeir leggja til 7 breytingar á stjórnarskránni.
- Sáttmálinn við Ghent, 24. desember 1814. Ghent, í Belgíu. Breskir og bandarískir samningamenn verða sammála um status quo ante bellum eða með öðrum orðum: Frið.
- Orustan um New Orleans í janúar 1815. New Orleans. Jackson hershöfðingii sigrar Breta í orustu. 700 Bretar drepnir, 1400 særðir. Átta BNA menn deyja, 13 særast. Ef fréttir af friðarsamningum hefðu borist fyrr hefði þessi orusta aldrei verið háð.
Smá vangaveltur
[breyta]Ef við pælum í því, þá sjáum við stóra stefnubreytingu hjá Repúblikönum. Þessi flokkur fór af stað í upphafi til þess að skapa ríkisstjórn sem ekki myndi fara í stríð. Ríkisstjórn sem ekki væri með miklar herkvaðningu eða háa skatta og ekki mikil afskipti af borgurum. En á þessum tímapunkti þegar þeir voru á sínu fjórða kjörtímabili voru þeir komnir langt frá sínum upphaflegu hugsjónum. Þegar Madison endaði seinna kjörtímabil sitt og dróg sig í hlé frá stjórnmálum.
Madison er þó sennilega einn merkilegasti stjórnmálamaður í sögu BNA. Höfundur stjórnarskráarinnar, einn af stofnendum bæði Federalista og Repúblikana. Aðalstuðningsmaður George Washington, seinna Thomasar Jefferson og að lokum forseti. En takið eftir því að hann endaði alltaf einhvern veginn í sigurliðinu.
James Monroe
[breyta]James Monroe var fimmti forseti Bandaríkjanna og sá fjórði sem var fæddur í Virginíu. Hann var afkomandi ríkra plantekrueigenda. George Washington, Thomas Jefferson og James Madison áttu allir plantekrur. Kannski er þetta ekki ólíkt því og að vera olíubarón í dag. Maður hefur alltaf þurft fjármagn til að verða forseti BNA. Thomas Jefferson og allir Repúblikanaforsetarnir mega eiga það að þeir studdu rétt allra til að kjósa, en Federalistar vildu að einungis landeigendur mættu það. Þó var kosningaþátttaka ekki gríðarleg í þá daga. Ekki voru allir læsir, ekki voru allir upplýstir um stefnumálin og þaðan af síður höfðu allir álit á þeim. Svo var náttúrulega ekki heldur nein góð skrá yfir kjósendur því það bættust alltaf sífellt fleiri íbúar við. Landnemar streymdu inn frá Evrópu og BNA stækkaði með gríðarlegum hraða.
Flestir sagnfræðingar líta á tímabil Monroe sem nokkurs konar gullöld. Þetta tímabil var síðar meir nefnt “The era of good feelings”. Ekki svo skrítið, BNA menn litu svo á að þeir hefðu unnið stórsigur á Bretum og staðfest að þeir væru sjálfsstæð þjóð sem myndi aldrei nokkurn tímann lúta einhverri Evrópuþjóð. Það sem Monroe er frægastur fyrir í dag er sjálf Monroe kenningin, en hún er stefna sem BNA menn hafa haldið síðan þá. Engin Evrópuþjóð skyldi komast til áhrifa á meginlandi Ameríku aftur.
En Evrópuþjóðirnar reyndu samt...
Monroe sendi Andrew Jackson hershöfðingja inn í Flórída sem þá var á valdi Spánverja. Tilgangur herferðarinnar var að ráðast á Seminóla indíána sem Monroe taldi ógna landnemum. Í herförinni uppgötvaði Jackson þó að Spánverjar voru gífarlega óvarðir í Flórída. Monroe keypti Flórída á lágu verði af Spánverjum sem óttuðust að annars yrði innrás.
Evrópuþjóðirnar stefndu að því að koma Spánverjum aftur til valda í nýlendunum sem allar höfðu lýst yfir sjálfsstæði. Þegar Monroe lýsti því yfir að BNA myndi ganga til bandalags við suðurameríku ríkin bökkuðu þau út úr því. Bretar voru einfaldlega ekki til í að lenda í stríði við BNA eftir allt vesenið 1812.
Tímabil Monroe
[breyta]Monroe varð tuttugu ára liðþjálfi í sjálfsstæðishernum undir stjórn Washington á sínum tíma. Hann barðist fyrir því síðar að forsetar yrðu kosnir í beinum kosningum, og lærði lögfræði hjá Thomas Jefferson. Hann var Repúblikani, og þar með sá þriðji í röð þeirra.
Monroe tók við af Madison sem forystumaður Repúblikana, burstaði kosningarnar og var svo gríðarlega vinsæll að enginn bauð sig gegn honum þegar fyrsta kjörtímabili hans lauk og hann var því sjálfkjörinn yfir á annað kjörtímabilið. Fyrra kjörtímabilið gekk þó ekkert rosalega vel, á því urðu margir ríkisbankar gjaldþrota og atvinnuleysi jókst.
Ef lesendur hafa lesið fyrri greinar mínar þá vitið þið að Thomas Jefferson var eindreginn andstæðingur ríkisbanka, þeir voru ástæða þess að hann sagði sig úr embætti utanríkisráðherra eða “secretary of state” á tímum Washingtons. En nú þegar Repúblikanaflokkurinn var búinn að vera við völd í sex kjörtímabil þá var hann búin að taka mörg baráttumál Federalista og gera að sínum. Strax á seinna kjörtímabili Jefferson var tekið til við að auka miðstýringu og styrkja völd ríkisstjórnarinnar. Ekki það að ég vilji meina að þetta hafi verið röng stefnubreyting. Ég er ekki viss um það og ætla ekki að dæma. (Enda ómögulegt að dæma ef maður hefur ekki afstöðu).
John Quincy Adams
[breyta]Hér kemur kunnuleg persóna, eða öllu heldur kunnulegt nafn. Þetta er enginn annar en sonur John Adams, varaforseta Washingtons og fyrsta (eina) forseta Federalista. John Quincy Adams byrjaði feril sinn sem Federalisti en gekk í Repúblikanaflokkin (eða Democratic Republicans eins og þeir hétu þá).
Þegar hann var tíu ára fór hann til útlanda með föður sínum, hann bjó bæði í Hollandi, Rússlandi og Frakklandi meðan hann ólst upp. Þegar hann kom heim lærði hann lögfræði en gekk afar illa sem lögfræðingur. Faðir hans sem þá var forseti, útvegaði honum þá starfi sem sendiherra í Hollandi. Þar giftist hann konu sem var af erlendum uppruna, föður hans til gremju. (Reyndar var hún bandarísk bara ekki alin upp í Ameríku).
Seinna meir kom hann heim til Massachusetts og bauð sig fram á þing og komst þar inn sem Federalisti. Hann var eini Federalista þingmaðurinn sem studdi kaupin á Louisiana fylki. Þetta þýddi það að hann varð ekki endurkjörinn á þing. Massachusetts var á þessum tíma sterkt Federalistaríki og hann fékk ekki að bjóða sig fram fyrir þá.
James Madison launaði honum þó fyrir að hafa greitt þetta atkvæði ef svo má segja þegar hann gerði hann að sendiherra í Rússlandi. Síðar John Adams sem kom á friði á milli Breta og BNA árið 1814 og endaði stríðið yfir Kanada.
Meðan James Monroe var forseti var Adams utanríkisráðherra eða “Secretary of state” og eftir að kjörtímabilum Monroe lauk var Adams því hið rökrétta val fyrir forsetaefni. Þrátt fyrir það varð Repúblikanaflokkurinn klofinn í því hver yrði forsetinn.
Kosningabaráttan
[breyta]Fjórir menn börðust um það að verða forseti BNA árið 1824. John Adams, Andrew Jackson, Henry Clay og William Crawford. Þetta voru fyrstu kosningarnar þar sem flest fylkin létu meirihlutakosningu ráða hver yrði forseti. Með öðrum orðum fylkin kusu ekki menn til að ákveða hver fengi atkvæðin heldur runnu atkvæðin beint til forsetaframbjóðendanna.
John Adams hlaut ekki meirihluta, enginn frambjóðandanna gerði það. Henry Clay aftur á móti gerði kosningabandalag við John Adams og það endaði þannig að John varð forseti og Henry varð “secretary of state”. Andrew Jackson sór þess eið að sigra hann í kosningunum 1828 en hann hafði hlotið flest atkvæðin af öllum fjórum þrátt fyrir að hafa ekki nægan meirihluta. Andrew sagði upp þingmannastöðu sinni í bræði og hóf að undirbúa kosningabaráttu sína.
Einungis eitt kjörtímabil
[breyta]John Adams tókst að koma afar fáum af draumum sínum í lög. Hann naut ekki nógu víðtæks stuðnings af þinginu. Honum tókst þó að setja upp verndarlög fyrir bandarískan varning, en það leiddi til þess að vörur hækkuðu í verði og Adams varð kennt um það allt saman. Andrew Jackson hafði farið um landið í þrjú ár og lýst því yfir Adams hefði hlotið forsetaembættið með svikum og prettum. Stuðningsmenn Adams svöruðu með harðri kosningabaráttu, eiginkona Jacksons var m.a. útlistuð sem hóra af þeim.
En eftir hatramma kosningabaráttu missti Adams embættið. Hann var þó þingmaður fyrir hönd Massachusetts það sem eftir var ævi sinnar. Hann gegndi því embætti með vissum þokka, og varð frægari fyrir afrek sín sem þingmaður fremur en forseti. Hann skipti svo um flokk síðar á ævi sinni, yfir úr Repúblikönum til svokallaðra “Whigs” en ég mun síðar fjalla um þá.
Fæðing Demókrata flokksins
[breyta]Demókrata flokkurinn var stofnaður af hershöfðingjanum Andrew Jackson og er talsvert ólíkur þeim Demókrataflokki sem við þekkjum í dag. Þetta er þó hin sami. Eftir kosningarnar þar sem John Quincy Adams vann “sigur” (sjá fyrri grein) stofnaði Andrew flokkin til að styðja sig. Andrew Jackson varð þjóðhetja eftir sigurinn í orustunni við New Orleans. Hann studdi það að Indíánar yrðu hraktir af löndum sínum með valdi. Eitthvað sem fyrri forsetar studdu ekki, allaveganna ekki opinberlega. Andrew Jackson var einnig ötull stuðningsmaður þrælahalds, en Repúblikanar sem höfðu verið með forsetaembættið frá tímum Thomas Jefferson voru andsnúnir því og höfðu þrátt fyrir að banna ekki þrælahald, bannað innflutning á þrælum og passað upp á það að þau fylki sem studdu þrælahald yrðu aldrei fleiri en þau sem studdu það. Andrew Jackson og Demókratar nutu því á fyrstu árum sínum mestan stuðning í suðurríkjunum þar sem þrælahald var viðtekinn venja. (Ólíkt þeim flokki sem við þekkjum í dag, sem nýtur mest stuðnings í norðurríkjunum og berst meira fyrir réttindum minnihlutahópa heldur en Repúblikanar).
Forsetinn Andrew
[breyta]Andrew Jackson var á móti réttindum Indíána og þrátt fyrir að hæstiréttur BNA hefði lýst yfir að ekki mætti hrekja Cherokee Indíánanna frá svæðum sínum ákvað Andrew að gera það samt. Engin forseti notaði neitunarvald sitt jafn mikið og Andrew Jackson, enda voru Repúblikanar oftast með meirihluta þingsins í hans valdatíð. Andrew hætti við vega og skurða framkvæmdirnar sem John Adams setti í gang. Andrew var á móti ríkisreknum bönkum og dró peninga ríkisins úr “Second Bank of united states” og dreifði þeim í banka víðsvegar um ríkið. Undir lok forseta ferils síns talaði Andrew Jackson mikið um peningavaldið í BNA og varaði við því að völd peningaelítunnar færu sífellt vaxandi og að fjármagn skipti meira máli en málefni. Í því tel ég hann hafa rétt fyrir sér og framtíðarspá hans um pólitík BNA rættist. Andrew þótti líka skapmesti forseti hingað til. Hann fékk oft æðisköst og var mjög fljótur til að ásaka. Hvað sem manni getur fundist um hann þá var hann skemmtileg týpa. Í augum almennings var hann hetja meðaljónsins að berjast gegn skrifstofu og peningaveldi og varð nokkuð vinsæll. Margir sagnfræðingar telja að svokölluð æðisköst hans hafi oft verið fyrir fram áætlaðir atburðir og aðferð hans til að koma höggi á andstæðinga sína.
Martin Van Buren
[breyta]Martin var fyrsti forseti BNA sem ekki var uppruninn frá Bretlandseyjum. (Andrew var af skosk írskum ættum, hinir af breskum uppruna). Hann var komin af Hollenskum innflytjendum. Ekki nóg með það heldur var hann sá fyrsti sem var fæddur í sjálfstæðum BNA. Faðir Martins, Abraham Van Buren, var kráareigandi og ötull stuðningsmaður Jefferson á sínum tíma. Pólitíkusar voru tíðir gestir á kránni sem var í alfaraleið og Martin fékk ungur áhuga á pólitík. Hann byrjaði ferilinn í Repúblikanaflokkinum en gekk til liðs við Andrew Jackson og Demókrata sem vildu að aftur yrði snúið yfir til stefnu Jefferson um litla ríkisstjórn. Eitt af meginmarkmiðum Demókrata var að draga úr ríkisafskiptum á öllum sviðum þjóðfélagsins (nema her) og Van Buren líkaði vel sú stefna. Á fyrra kjörtímabili Jacksons var Van Buren “secretary of state” og á því seinna varaforseti. Á þeim tíma vann hann mikið að uppbyggingu Demókrataflokksins og það má segja að þótt Jackson hafi stofnað flokkin þá var það Van Buren sem mótaði hann.
Efnahagsvandamál
[breyta]Á meðan Jackson var við völd gekk efnahagurinn vel, en undir lok kjörtímabilsins kom Jackson mikilli óreiðu á í efnahagslífinu þegar hann stokkaði upp í bankakerfinu. Van Buren sem vann eftir að hafa lofað að halda áfram stefnu Jacksons horfði fram á risavaxna kreppu í byrjun kjörtímabilsins sem var sú versta sem BNA hafði hingað til staðið á fyrir. Van Buren varð einnig óvinsæll fyrir að sýna linkind í utanríkismálum. Á þessum tímapunkti voru margir BNA menn að flytja til Texas sem þá tilheyrði Mexíkó. Þar lentu þeir í deilum við mexíkönsk yfirvöld m.a. út af því að þrælahald var ólöglegt í Mexíkó en BNA mennirnir sem reistu búgarða í Texas drógu með sér þræla yfir landamærin og neituðu að frelsa þá. Van Buren lýsti því yfir að hann hefði ekki í hyggju að hefja stríð gegn Mexíkó og hertaka Texas, en margir suðurríkjamenn töldu að slíkt væri nauðsynlegt. Van Buren var líka ásakaður um linkind í norðurríkjunum því deilur spruttu oft upp á landamærum BNA og Kanada þegar Breskir og Bandarískir landnemar rifust um hvort landsvæði tilheyrðu Bresku krúnunni eða Bandaríkjunum. Van Buren neitaði að beita valdi gegn Bretum og hætta á stríð heldur vildi hann frekar fara samningaleiðina.
Whig flokkurinn
[breyta]William Henry Harrison hét maður. Hann var fæddur tveimur árum fyrir sjálfstæðisstríðið í einni ríkustu fjölskyldu í þáverandi nýlendu. Hann varð hershöfðingji í 1812 stríðunum eftir að hafa verið fylkisstjóri á “indíánasvæðunum” sem í dag eru Indiana og Illinois. Harrison var eins og Jackson afar andsnúin indíánum. Hann varð eins og Jackson þjóðhetja í stríðunum. Því þótti hann kjörinn andstæðingur gagnvart Van Buren og varð forsetaefni Whig flokksins. Til þess að við áttum okkur á Whigflokknum verðum við að skilja hversvegna hann heitir Whig flokkurinn. Á tímabili John Quincy Adams hrundi samstaðan innan Repúblikana flokksins, sem sést meðal annars í því að þeir höfðu mörg forseta efni. Henry Clay sem myndaði kosningabandalag með John Quincy Adams var yfir þjóðlegum Repúblikönum, John Adams var yfir Demókratískum Repúblikönum, en þegar Andrew Jackson hafði lokið af þriggja ára kosningaherferð sinni um BNA hafði fylgi Repúblikana hrunið og þeir höfðu tvístrast í litla smáflokka sem ekki lengur voru megnugir til þess að koma með almennilegt forsetaframboð. Andrew Jackson og Demókratar áttu því leik á borði komu honum inn sem forseta þrátt fyrir að ná þinginu aldrei alveg. Fyrir tíma Andrew Jacksons hafði engin forseti virkilega notað neitunarvaldið að neinu ráði. Flestir litu svo á að einungis ætti að nota neitunarvaldið til að vernda stjórnarskránna fyrir breytingum af hendi þingsins. Andrew Jackson aftur á móti tók að nota neitunarvaldið gegn venjulegum lagafrumvörpum og fjárveitingum. Hann varð að sjálfsögðu afar umdeildur og fólk tók að líta á hann sem einræðisherra. Þaðan af sprettur nafnið Whig á whigflokkin sem stofnaður var af and Jacksonistum. Nafnið er tekið af öðrum flokki á Bretlandi. Á Bretlandi var þingið skipt í tvær fylkingar konungsinnar: Tories og þeir sem voru andsnúnir völdum konungs: Whigs. Harrison sem var þjóðhetja eins og Andrew var kjörið forsetaefni. Hann tapaði að vísu fyrir Van Buren í fyrstu viðureign þeirra, (sem er ekki skrítið miðað við að Whigs voru nýstofnaður flokkur), en hann sigraði Van Buren fjórum árum síðar.
Kosningabaráttan
[breyta]Whigs voru fyrsti flokkurinn sem notaði söngva, slagorð, hátíðir og slíka hluti í kosningabaráttu. Þeir gáfu fólki vínflöskur og frían mat. (Flöskurnar voru oftast með slagorðum utan á). Þeir gerðu lítið úr Van Buren og héldu því fram að hann væri snobbaður aristocrat(sem er reyndar ekki rétt, Harrison var af ríkri fjölskyldu komin en Van Buren af almúgafjölskyldu). Þeir voru fyrsti flokkurinn með nútímalega kosningabaráttu og það skilaði sér í stærstu kosningaþáttöku fram til þessa þar sem nær allir kjósendur mættu á kjörstaði. William Harrison varð níundi forseti BNA, en einnig sá elsti (þar til Reagan var kjörinn). 68 Ára gamall hélt hann vígsluræðu sína án hatts og kápu í grenjandi rigningu. Hann fékk lungnabólgu og dó eftir að hafa einungis verið forseti i 32 daga. Á eftir honum fylgdi einn umdeildasti forseti í sögu BNA.
Varaforsetinn tekur völd
[breyta]John Tyler tók við af fyrsta forsetanum sem lést í embætti. Hann var sá seinasti sem var ríkur landeigandi í Virginíu. John var á móti því að menn á landeignar hefðu kosningarétt(og hafði eytt mestum pólitískum tíma sínum í að berjast fyrir), það er viss kaldhæðni fólginn í því að hann og Harrison hefði verið kjörnir fyrir það að látast vera almúgamenn og málað upp Van Buren sem aðalsmenn þegar staðreyndin var að því var öfugt farið. Það sennilega eina sem Tyler var sammála Jackson um var að ekki ætti að banna þrælahald. Að vísu átti Tyler skammvinnan feril innan Demókrataflokksins en hætti vegna persónulegs ágreinings og gekk í Whigs. Eftir að Harrison hafði haldið tveggja klukkustunda vígsluræðu út í regni án hatts og kápu hafði Tyler snúið heim til Virginíu. Mánuði síðar neyddist hann til að koma aftur og sverja embættiseið. Margir Whigs voru andsnúnir Tyler, en Tyler sór að fylgja stefnumálum Harrisons, og skipti ekki út neinum meðlimum ríkisstjórnarinnar. En strax ári síðar þá gerði þingið tilraun til að endurvekja landsbanka BNA. (Það er mikið búið að ræða í fyrri greinum um skoðanir forseta á hvort ríkið megi reka banka allt frá tímum George Washingtons hafa staðið deilur um það). Tyler nýtti neitunarvald forsetans gegn stofnun bankans. Allir meðlimir ríkisstjórnar urðu óðir yfir þessu og sögðu upp stöðu sinni í mótmælaskyni, að undanskildum “secretary of state” sem var í mikilvægum samningaviðræðum við Breta um landamæri BNA og Kanada. John Tyler var á móti deilum við Mexíkó og þegar þing BNA lýsti yfir að Texas væri partur af BNA beitti hann neitunarvaldi. Í fyrsta sinn í sögu BNA gekk þingið framhjá neitunarvaldinu og viðurkenndi það ekki.
Demókratar taka aftur völd
[breyta]John var rekinn úr Whigs flokkinum og þeir reyndu að flæma hann úr forsetaembætti. Tyler var þó forseti út kjörtímabilið og bauð sig fram aftur. Þá voru þrír frambjóðendur, Demókratinn James Polk, Whigsmaðurinn Henry Clay og Tyler. Tyler hafði megna andúð á Henry Clay og dróg framboð sitt tilbaka til að tryggja að James Polk hefði sigur. Aðalkosningarmálið var hvort það ætti að fara í stríð við Mexíkó og hertaka Texas. James Polk taldi að það væri kominn tími á það. Meirihluti norðurríkjamanna voru á móti þrælahaldi og vissu að Texas yrði þrælafylki. Þar með yrðu fylki sem leyfðu þrælahald komin í meirihluta og þar með næg völd til að stýra lögum landsins. Fram af þessu hafði verið nokkuð jafnt. En ástæðan fyrir að Henry Clay fékk ekki afgerandi stuðning norðursins var sú að hann var sjálfur þrælaeigandi.
BNA stækka
[breyta]Í byrjun kjördæmabils Polk lauk samningaviðræðum Breta og BNA og Washington og Oregon fylki bættust við í BNA þegar landamæralínan milli Kanada og BNA var dregin. Polk beindi því augum sínum til suðurs í átt að Texas. Mexíkó hafði lýst yfir að Texas tilheyrði þeim og væri ekki á leiðinni í hendur BNA. Stríð var í aðsigi. En rennum fyrst yfir nokkra hluti varðandi ástæður stríðsins:
Í fyrstu höfðu Mexíkanar tekið vel á móti Bandarískum innflytjendum en árið 1830 þegar Ameríkanar urðu fjölmennari en BNA menn þá lokuðu þeir landamærunum. Það dugði ekki til þess að stöðva fólksstreymið inn yfir landamærin. (Kaldhæðni ekki satt, í dag eru landamæri Texas og Mexíkó vel vörðuð til að hindra Mexíkanska innflytjendur). Árið 1836 lýstu BNA menn í Texas yfir stofnun lýðveldisins Texas. Fyrstu átök uppreisnarinnar voru í Alamo og unnu Mexíkanar þau. En stríðinu lauk ekki þar, Houston (hershöfðingji, sem bærinn var seinna skírður eftir) vann her Santa Anna nokkrum árum síðar og var kjörinn forseti Texas. Uppreisnin hafði verið styrkt af BNA mönnum og sóttust íbúar Texas eftir sameiningu við BNA. Þegar þing BNA samþykkti það svo 1845 3.mars (degi áður en Polk varð forseti). Stuttu seinna var forseta Mexíkó steypt af stóli en hann var hlynntur samningaviðræðum. Í hans stað kom hershöfðingjastjórn sem sóttist eftir stuðningi Evrópskra konungsvelda til að berjast gegn BNA. (Í BNA gekk meira að segja sá orðrómur um að Mexíkó hefði lofað Bretlandi Kaliforníu á móti því að fella niður skuldir Mexíkó). Stríð var óumflýjanlegt. Bandaríski hershöfðingjinn Zachary Taylor sigraði Mexíkananna í Texas og BNA menn sendu að auki flota sem lenti í Vera Cruz og réðst þaðan á Mexíkó borg. Árið 1847 samþykktu Mexíkanar að selja Texas, Nýja Mexíkó og Kaliforníu fyrir 15 milljónir dollara. Polk varð óhemju vinsæll þrátt fyrir að stríðið hafði kostað mikið mannfall. Hann bauð sig þó ekki fram eftir heldur lét eitt kjörtímabil nægja. Til þess að halda jafnvægi milli andþrælasinna og þrælasinna lét hann stofna jafnmörg fylki sem leyfðu þræla og jafnmörg sem bönnuðu þá. Sá sem tók við af honum í embætti var Zachary Taylor, sem var stríðshetja, “Indíánabani”, ríkur þrælaeigandi og flokksmeðlimur í Whigsflokknum. Zachary Taylor hafði unnið sér það til frægðar að sigra Santa Anna hershöfðingja í orustu með 6000 hermenn gegn 20.000. Ef Polk hefði boðið sig aftur fram hefðu Demókratar líklega unnið kosningarnar, en Polk lést þrem mánuðum eftir að hann hætti sem forseti úr Kóleru.
Zachary Taylor
[breyta]Flestir bjuggust við að Zachary Taylor myndi eindregið styðja við þrælahald. En hann ákvað að láta nýju fylkin sjálf ákveða hvort þau vildu leyfa þrælahald til að æsa ekki upp norðurríkin. En til þess að friðþægja Demókrataþingmenn úr suðrinu úrskurðaði hann að ef þrælar myndu finnast í ríkjum þar sem þrælahald væri bannað þá skyldu þeir engu að síður vera skilaðir til “eigenda” sinna. Þetta var kallað 1850 samkomulagið eftir árinu þar sem það var samþykkt. Mikil ólga var í norðurríkjunum yfir þessari ákvörðun, en Zachary benti á að, suðurríkjamenn hótuðu að segja sig úr ríkjasambandinu ef þessi lög tækju ekki gildi. Kalífornía varð ríki án þræla, en Nýja Mexíkó og Utah urðu hlutlaus. Zachary Taylor dó árið 1850 úr Kóleru, annar forseti BNA til að deyja í embætti. Við af honum tók varaforseti hans Millard Fillmore. Fillmore var ekki jafn umdeildur og John Tyler. Núna var komin almenn sátt um það að varaforseti væri sá sem tæki við stjórninni ef forseti léti lífið. Af því að Millard á svolítið óvenjulega ævi miðað við forseta BNA ætla ég að deila henni með ykkur.
Millard Fillmore
[breyta]Millard var fæddur í átta barna fjölskyldu. Faðir hans var fátækur bóndi sem bjó skammt undan New York og hann seldi Millard yfir í læri hjá vefnaðarmanni. Í rauninni var Millard þó ekki í neinu læri heldur bara í barnaþrælkun, sem er svo sem ekkert óvenjulegt miðað við það að hann fæddist árið 1800 og á þeim tíma þótti ekkert að því að þræla börnum út. Einhver maður sá þó aumkun á Millard og lánaði honum 30 dollara til að kaupa sig lausan frá vefnaðarmanninum. Millard gekk síðan 100 mílna leið heim á sveitabæjinn. Millard var að mestu leyti sjálfmenntaður, hann stal bókum til að lesa og stefndi ávallt hátt. Á unglingsárum sínum fór hann til kennara að nafni Abigail, hún ekki bara kenndi honum heldur giftist honum síðar. (Hvað er með BNA og eldri kennslukonur sem giftast nemendum sínum?) Reyndar var Abigail aðeins tveim árum eldri en Millard svo þetta er ekki svo slæmt, Millard giftist henni stuttu eftir að hann fékk lögmannsembætti hjá héraðsdómaranum. Millard gekk til liðs við smáflokk, andfrímúrara smáflokk. Á þessum tíma árið 1828 voru margir frímúrarar við völd á þingi, og Andrew Jackson þáverandi forseti var frímúrari. ........(innsetjið ykkar eigin samsæriskenningar hérna).... Þegar maður að nafni William Morgan sem hafði sagt sig úr frímúrara reglunni og hafði hótað að ljóstra upp ýmiskonar leyndarmálum fannst látinn urðu fjölmargar samsæriskenningar til. Millard var boðið að bjóða sig fram fyrir hönd þeirra sem voru á móti ítökum frímúrara. (Millard var lögfræðingur en með fátækan bakgrunn og engin tengsl við frímúrara). Millard komst inn á þing ekki einu sinni þrítugur og stuttu síðar sameinaðist flokkur hans við Whigs flokkin. Whigsflokkurinn varð til þegar fjölmargir smáflokkar sameinuðust til að berjast gegn einræðistilburðum Jacksons. (Þeir sem muna eftir Jackson úr fyrri greinum vita að hann vann einn stærsta sigurinn í 1812 stríðunum, tók þátt í herför inn í Flórída, stofnaði Demókrataflokkin, tók að nota neitunarvald forseta og var almennt einstaklega skapstyggur á seinna kjörtímabili sínu). Ferill Millards innan Whigs gekk vel og árið 1848 varð hann varaforsetaefni Zachary Taylors og loks árið 1850, varð hann öllum að óvörum forseti BNA. Það er nú svei mér þá andskoti gott fyrir strák sem byrjaði feril sinn í barnaþrælkun.
Mikilvægir atburðir í stjórnartíð Millards Filmore
[breyta]Á tímum hans opnaði Bandaríski sjóherinn fyrir verslun við Japan. Einnig varð Hawaii hluti af BNA en þó ekki fylki strax. Árið 1848 hófst gullæðið og Millard sem var forseti 1850-53 var forseti á þeim tíma sem Kalífornía byggðist og járnbrautir voru reistar til að tengja landið. En á meðan allt þetta gerðist tók að harðna í átökum milli þeirra sem vildu afnema þrælahald og þeirra sem ekki vildu gera það. Whigsflokkurinn reyndi að vera hlutlaus, Demókratar studdu þrælahald og voru þar með komnir með meirihluta atkvæða frá suðurríkjunum. Whigsflokkurinn sá fram á að pólitískur stuðningur við þá fór þverrandi. Þeir gengu því til liðs við annan flokk sem var kallaður hinu skrýtna nafni The Know nothing party. Sá flokkur barðist gegn fleiri innflytjendum til BNA. Millard var ekki forsetaefni Whigsflokksins í annað sinn því þeir höfðu verið ósáttir yfir 1850 samkomulaginu sem hann átti þátt í að samþykkja, í staðinn fyrir var Scott Winfield forsetaefni þeirra.. Á þessum tíma var gerð innrás inn á Kúbu sem misheppnaðist. Millard var á móti innrásinni en hún var framkvæmd án hans blessunar af suðurríkjamönnum sem vildu með því fjölga fylkjum sem iðkuðu þrælahald með því að stækka sig suður á bóginn.
Spennan magnast, Demókratar ná völdum
[breyta]Fjórir aðilar sóttust eftir því að verða forsetaefni Demókrata. James Buchanan, William Marcy, Stephen Douglas og Lewis Cass. Þeir voru svo jafnir að engin þeirra varð kjörinn forsetaefni. Í staðinn fyrir var ákveðið að sættast á að láta einhvern tiltölulega óþekktan pólitíkus vera forsetaefnið í staðinn fyrir að tvístra flokkinum upp í deilur. Franklin Pierce varð fyrir valinu. Hann hafði enga óvini, ekkert orðspor hvorki gott né slæmt, hafði þó barist í Mexíkó stríðinu sem gaf plúss og var að auki nokkuð laglegur og góður ræðumaður. Franklin Pierce þótti nokkuð hlutlaus í þræla málinu og tók voða litla afstöðu yfirleitt í nokkrum málum. Ekki nóg með það, heldur tók hann engan þátt í kosningabaráttunni heldur. Engu að síður vann hann og margir sagnfræðingar í dag vilja meina að það sé m.a. út af því að Scott Winfield þótti afar leiðinlegur maður. (Á botnin hvolft þá eru það ekki alltaf málefnin sem þetta snýst um). Franklin og Scott voru reyndar báðir fyrir miðju og vildu forðast breytingar á jafnvægi.
Sorgleg forsetatíð
[breyta]Aðeins tveimur mánuðum fyrir vígsluræðu Franklins í Mars lést sonur hans í lestarslysi sem Franklin og eiginkona hans urðu vitni að. Eiginkona Franklins var ekki viðstödd við vígsluathöfnina og engin veisla var haldin að henni lokinni. Franklin veitti stjórn landsins fremur litla athygli og varð harðlega gagnrýndur af þeim sem vildu afnema þrælahald fyrir að setja öfgasinnaða Demókrata í ráðherrastöður. Einnig voru miðjusinnaðir Demókratar ósáttir við það. Varaforseti Franklins, William Rufus King lést úr berklum fljótlega eftir að Franklin tók við embætti. Þegar Kansas fylki var stofnað hófust deilur um hvort að þrælahald ætti að vera löglegt þar eða ekki. Franklin tók ekki afstöðu í málinu og sagði að íbúar fylkisins ættu sjálfir að ákveða þetta. Íbúar Kansas fóru því að kjósa um þetta mál. Þrælahaldsstuðnings menn frá suðurríkjunum streymdu inn til þess að taka þátt í kosningunum (enda ómögulegt á tímum án persónuskilríkja að sannreyna hvar fólk bjó). Norðurríkjamenn svöruðu tilbaka með að sjálfir halda til Kansas, og innan skamms var fylkið uppfullt af helstu baráttumönnum fyrir og gegn þrælahaldi. Þegar kjörtímabili Franklins lauk logaði Kansas í deilum og fjölmörg morð höfðu orðið út af slagsmálum og átökum milli þrælasinna og andþrælasinna. Þrælasinnar neituðu að viðurkenna stjórnvöld Kansas og stofnuðu sín eigin, andþrælasinnar svöruðu tilbaka með stofnun sinna eigin stjórnvalda. Kansas var orðið miniútgáfa af BNA í borgarastyrjöldinni.
Upphaf borgarastyrjaldar
[breyta]Demókratar unnu aftur kosningarnar 1856. En Franklin hafði ekki boðið sig aftur fram. Í stað hans varð James Buchanan forseti en hann hafði boðið sig fram áður árin: 1844, 1848, 1852 en fyrst núna fengið tilnefningu Demókrata. Buchanan fékk augljóslega langmestan stuðning í suðurríkjunum, þar sem stefna hans gekk út á það að hvert fylki um sig fengi að ákveða hvort það styddi þrælahald eður ei. Stuttu áður en hann varð forseti úrskurðaði hæstiréttur BNA að þrælar væru ekki Bandarískir þegnar og hefðu því engin lagaleg réttindi. Þetta mál kom upp af því að þræll sem hafði farið með eiganda sínum til ríkis þar sem þrælahald var ólöglegt kærði eiganda sinn. Hæsti réttur felldi niður kæruna og gerði þennan mann aftur að þræli. Buchanan minntist á þetta í vígsluræðu sinni og sagði að hann teldi að Hæstiréttur hefði farið með rétt mál þarna þegar hann úrskurðaði að þrælar hefðu einungis sömu réttindi og aðrar eigur manna (á borð við t.d. hest eða stól) og hvatti alla til að hlýða þessum lögum. Þeir sem voru á móti þrælahald urðu ævareiðir og litu á þetta sem ögrun. Í kjölfar þess reið mótmælaalda yfir norðurríkin og samtök þeirra sem voru á móti þrælahaldi tóku að setja meiri áherslu á að frelsa þræla. Whig flokkurinn var hrunin, enda var ljóst að miðjustefna þeirra dugði ekki lengur til að fá atkvæði neinsstaðar. Fjölmargir af meðlimum Whigs voru búnir að ganga inn í nýja Repúblikana flokkinn. (Sem tók nafn sitt af gamla flokk Thomas Jeffersons sem hafði liðið undir lok um svipað leyti og Whigs komu fram á sjónarsviðið). Þetta er sá flokkur sem við í dag köllum Repúblikana, en þó er þetta langt frá því að vera líkur þeim núverandi í stefnumálum. Stefna Repúblikana var einföld: Þrælahald skyldi vera ólöglegt í öllu BNA og hlutu þeir miklar vinsældir í norðurríkjunum. James Buchanan lýsti því yfir að Kansas skyldi vera þrælaríki, en þó voru ekki allir Demókratar sammála því og fannst hann fara á bak orða sinna. Miðjusinnaðir Demókratar undir forystu Stephen A. Douglas kröfðust þess að kosningar færu aftur fram í Kansas um hvort Kansasbúar vildu leyfa þrælahald. Þegar James bauð sig fram til endurkjörs 1861 var Demókrataflokkurinn tvístraður. Mótframboð Stephens leyddi til þess að hvorugur náði meirihluta. Repúblikanar unnu hvíta húsið og Abraham Lincoln varð forseti.
Erfið byrjun
[breyta]Dagin sem Abraham varð forseti sögðu sjö suðurríki sig út úr ríkjasambandinu. Og til þess að bæta gráu ofan á svart þá gengu fjögur fylki til viðbótar í lið suðurríkjanna þegar Abraham lýsti því yfir að þetta þýddi stríð.
„Ef maður væri spurður um hver væri fyrsti forseti BNA, myndu afar fáir segja John Hanson. Samt var Hanson fyrsti forseti kjörni forseti BNA árið 1781, átta árum áður en George Washington komst til valda.”
Bein þýðing upp úr Sunday Times Magazine 27.02.05.
John Hanson var einungis forseti í eitt ár, hann var bóndi og þótti vera mjög góður ræðumaður. Þetta ár, árið 1781 var gerð tilraun til að sameina öll þrettán fylkin. Bretar höfðu gefist upp á tilkalli til ríkjanna, en ennþá átti eftir að sameina ríkin og semja stjórnarskrá. John Hanson var helsti baráttumaður sameiningar í heimahéraði sínu Maryland. Maryland var seinasta ríkið sem gekk í ríkjasambandið þann 1 Mars, 1781. Þingið kaus John Hanson sem forseta í Nóvember sama ár. Eins og áður sagði var John Hanson bara forseti í eitt ár. Af honum tóku við Elias Boudinot, Thomas Mifflin, Richard Henry Lee, Nathaniel Gorman, Arthur st Clair og Cyrus Griffin. (Allt menn sem engin hefur heyrt um). Á þessum átta árum sem þessir menn skiptust á að fara með völd voru öll fylkin fremur sjálfstæð, ríkið var kannski sambærilegra við ESB í dag fremur en BNA. Þingið sem þá var að mestu Federalistar 1789 vildi meiri sameiningu og það ár var ný stjórnarskrá samþykkt sem veitti forsetanum meiri völd og gerði hann að því mikilvæga hlutverki sem hann þjónar í dag. Fyrsti forsetinn sem var kjörinn eftir nýju stjórnarskránna var George Washington og það er því hann, en ekki John Hanson sem við munum eftir.
Heimildir mínar að þessari skemmtilegu staðreynd var The Sunday Times Magazine.
Upplýsingar mínar fyrir þessu voru flestar á http://www.americanpresidents.org sem ég byggi mestallar greinar mínar á. Einnig leitaði ég á náðir http://www.CNN.com til þess að staðfesta hjá mér fullyrðingar mínar á mismunandi stefnumálum Kerrys og Bush. Ég vildi óska þess að ég gæti útskýrt Bandaríska kosningakerfið og valdakerfið betur fyrir ykkur en þið verðið að bíða aðeins með það að ég verði nógu fróður í Bandarískri sögu til þess. En sem komið er þá er kosningakerfið í sumum fylkjum hálfgjörð kínverska fyrir mér.
Jæja, í næstu grein verður fjallað um þrælastríðið en fyrir þá sem ekki hafa lesið greinar mínar, eða þá sem muna ekki allt, eða vilja bara rifja upp er hér smávegis upprifjun um hvað átti sér stað. Og hverjir séu hvað.
George Washington, reyndi að feta milliveg milli allra pólitískra fylkinga og kom á þeirri hefð að forsetar BNA sætu einungis tvö kjörtímabil í mesta lagi. John Adams tók við af honum, hann var federalisti, en sá flokkur taldi að meiri miðstýring væri æskileg og vildi aukin afskipti ríkisins af efnahagi og þjóðinni almennt. Þessu var Thomas Jefferson algjörlega andsnúin, en stefna hans sem er mjög í ætt við frjálshyggju hefur síðan mótað mikið bandaríska pólitík. Hann stofnaði Democratic Republican flokkin sem hélt völdum lengi eftir hans tíma, en að lokum umbreyttist úr þeim frjálsræðisflokki sem hann átti að vera yfir í erkióvin sinn Federalista og sönnuðu þar með (TAKIÐ EFTIR ÞETTA ER EINUNGIS MITT MAT) í eitt skipti fyrir öll að völd spilla. Thomas Jefferson er fyrsti forsetinn sem fer í stríð (hann fer í stríð við sjóræningja í afríkuríkjum) og fyrsti til að nota viðskiptabann á lönd. (Sem hann setti á England til að andmæla mannránum sem þeir stunduðu, þegar þeir þvinguðu fólk í breska herinn). James Madison tók við af Thomas og hafði verið hans varaforseti. Hann lendir í stríði við England og fyrirætlanir hans um að hertaka Kanada mistakast og í kjölfarið fylgir blóðugt stríð. Í því stríði verður svo helsti andstæðingur Democrat Republican flokksins til þegar Andrew Jackson verður stríðshetja. James Monroe tekur við af Madison og er þetta þriðji forseti Democrat Republicana í röð. Engin bíður sig fram á móti honum seinna kjörtímabil hans og Federalistar sem voru aðal stjórnarandstaðan hrynur. John Quincy tekur við og er þetta nú farið að minna á flokksræði þar sem hann er líka úr sama flokk og allir hinir þar á undan frá tímum Jeffersons. En flokkurinn klofnar og ekki eru allir sammála um hver ætti að vera forsetaefni flokksins, það endar þó á að Quincy verður forseti þrátt fyrir að vera í minnihluta. Andrew Jackson stofnar Demókrataflokkin og sigrar Repúblikana í kosningum. Hann víkkar út neitunarvald forsetans. Hann vekur aftur upp þá stefnu að ríkið eigi að skipta sér sem minnst af og lýtur svo á að t.d. ríkisbankar séu brot á stjórnarskránni. Whigsflokkurinn verður til, á tímum Andrews og er nafnið vísun í annan flokk á bretlandi sem er á móti konungsræði. Þeim þykir Andrew stefna í einveldi. Eftir Andrew verður demókratinn Van Buren forseti en er það ekki nema í eitt kjörtímabil. Whigs flokkurinn er fyrsti flokkurinn sem gefur frían mat og drykk, og hefur fjöldafundi, baráttulög og öfluga auglýsingaherferð. Þeir koma til valda George Harrison, sem þó drepur sjálfan sig með vígsluræðu sinni. (Hann fær lungnabólgu sökum þess að hafa staðið út í rigningu og haldið ræðu í þrjá tíma). Hann er fyrsti forsetinn til að deyja í embætti. John Tyler varaforseti tekur við en er afar umdeildur. Þingið neitar að viðurkenna neitunarvald hans og allir nema einn stjórnarliði segja stöðu sinni í ríkisstjórn hans lausri. Það kemur því fáum á óvart að John sé ekki endurkjörinn (þótt að umdeilanlegt sé hvort hann hafi verið kjörinn), en næstur í röðinni er Demókratinn James Polk. Polk stækkar BNA um meira en helming, hann staðfestir ný landamæri Kanada og BNA, og hann hertekur Texas, Nýju Mexíkó, Arisóna og Kaliforníu með stríði við Mexíkó. Zachary Taylor er næsti forsetinn, hann er Whigsmaður. Á hans tíma magnast deilur milli þeirra sem vilja afnema þrælahald og þeirra sem vilja halda því. Zachary er hlutlaus í málinu og deyr úr Kóleru meðan hann er forseti. Millard Fillmore tekur við.
Næstu forsetar BNA eru demókratarnir Franklin Pierce og James Buchanan sem báðir styðja þrælahald, á þeirra tíma brjótast út blóðug átök í Kansas milli stuðningsmanna á þrælahaldi og þeirra sem eru mótfallnir því. Whigsflokkurinn klofnar og hverfur. Þeir menn innan Whigsflokksins sem eru andstæðingar þrælahalds stofna nýjan flokk með mönnum úr The know nothing party, sem var flokkur menntamanna í norðurríkjum sem var á móti þrælahaldi og barðist fyrir réttindum indíána. Nýji flokkurinn er Repúblikana flokkurinn. Repúblikanar vilja banna allt þrælahald og árið 1861 ná þeir völdum. Daginn sem Abraham Lincoln tekur við völdum rjúfa suðurríkin sig frá BNA og borgarastyrjöldin hefst.
Tilvísanir
[breyta]- ↑ Second amendment Legal information institute