Fara í innihald

Albanía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 9. nóvember 2024 kl. 11:01 eftir Akigka (spjall | framlög) Útgáfa frá 9. nóvember 2024 kl. 11:01 eftir Akigka (spjall | framlög)
(breyting) ← Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Lýðveldið Albanía
Republika e Shqipërisë
Fáni Albaníu Skjaldarmerki Albaníu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Feja e Shqiptarit eshte Shqiptaria
Þjóðsöngur:
Hymni i Flamurit
Staðsetning Albaníu
Höfuðborg Tírana
Opinbert tungumál Albanska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Bajram Begaj
Forsætisráðherra Edi Rama
Sjálfstæði frá Tyrkjaveldi
 • Yfirlýst 28. nóvember 1912 
 • Viðurkennt 29. júlí 1913 
 • Lýðveldi 31. janúar 1925 
 • Konungsríki 1. september 1928 
 • Lýðveldi 11. janúar 1946 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
140. sæti
28.748 km²
4,7
Mannfjöldi
 • Samtals (2023)
 • Þéttleiki byggðar
143. sæti
2.402.113
83,6/km²
VLF (KMJ) áætl. 2024
 • Samtals 58,196 millj. dala (118. sæti)
 • Á mann 21.376 dalir (83. sæti)
VÞL (2022) 0.789 (74. sæti)
Gjaldmiðill Lek
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Þjóðarlén .al
Landsnúmer +355

Albanía (albanska: Shqipëri eða Shqipëria; gegalbanska: Shqipni eða Shqipnia, líka Shqypni eða Shqypnia) er land í Suðaustur-Evrópu. Það á landamæri í norðri að Kosóvó og Svartfjallalandi, Norður-Makedóníu í austri og Grikklandi í suðri. Vesturhluti landsins liggur að Adríahafinu og í suðvestri liggur strönd landsins meðfram Jónahafinu. Bæði höfin eru hluti af Miðjarðarhafi. Landhelgi Albaníu liggur að landhelgi Grikklands, Svartfjallalands og Ítalíu.

Albanía er landfræðilega fjölbreytt þótt landið sé aðeins 28.748 km² að stærð, frá snævi þöktum fjallstindum í Albönsku Ölpunum að heitum og sólríkum ströndum við Miðjarðarhafið.

Sögulega hefur Albanía verið byggð ýmsum þjóðum frá fornöld. Þar hafa búið Illýrar, Þrakverjar, Forn-Grikkir, Rómverjar, Feneyingar og Ottómanar. Albanar stofnuðu sjálfstæða furstadæmið Arbër á 12. öld. Konungsríkið Albanía og Furstadæmið Albanía stóðu þar á 13. og 14. öld. Þegar Tyrkjaveldi hóf að leggja Balkanskagann undir sig á 15. öld veittu Albanar harða mótspyrnu undir stjórn Skanderbegs.

Sjálfstæðisbarátta hófst með Albönsku endurreisninni á 19. öld og þegar Tyrkjaveldi beið ósigur í Balkanstríðunum lýstu Albanar yfir stofnun sjálfstæðs þjóðríkis árið 1912. Í upphafi Síðari heimsstyrjaldar gerði Ítalía óvænt innrás í Konungsríkið Albaníu 1939 og stofnuðu þar verndarríkið Stór-Albaníu með hlutum af landsvæðum Júgóslavíu, Búlgaríu og Grikklands þar sem stórir hópar Albana bjuggu. Eftir styrjöldina stofnaði Enver Hoxha kommúnistaríkið Albaníu sem var einangrað alræðisríki. Uppreisnir gegn kommúnistastjórninni hófust árið 1990 og 1991 var fjölflokkalýðræði komið á.

Í landinu er þingræði. Höfuðborg Albaníu er með 600.000 íbúa af þeim 3.000.000 sem búa í öllu landinu.[1] Landið er skilgreint sem þróunarland og miðtekjuland þar sem þjónustugeirinn er stærstur en framleiðsluiðnaður kemur þar á eftir. Lagabreytingar sem miða að frjálsum markaði hafa opnað landið fyrir erlendum fjárfestingum, sérstaklega á orku- og samgöngusviði.[2] Hið opinbera sér öllum borgurum fyrir ókeypis heilsugæslu og grunn- og framhaldsmenntun.

Landið er aðili að Sameinuðu þjóðunum, NATO, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Evrópuráðinu, Alþjóðaviðskiptastofnuninni, Samtökum um íslamska samvinnu (OIC) og Miðjarðarhafsráðinu. Það hefur verið umsóknaraðili að ESB síðan 2003 og sótti formlega um aðild þann 28. apríl 2009.[3]

Landaheitið Albanía kemur úr miðaldalatínu. Hugsanlega er það dregið af nafni illyríska ættbálksins sem Grikkir kölluðu Albanoi. Uppruni heitisins er hugsanlega frumindóevrópska orðið *alb sem merkir „hæð“ eða „fjall“ og er mögulega líka uppruni heitis Alpafjalla. Landfræðingurinn Kládíus Ptólmæos gerði landakort árið 150 sem sýnir borgina Albanopolis norðaustan við Durrës.[4][5] Hugsanlega kemur sama nafn fyrir sem heiti á Albanon eða Arbanon, þótt ekki sé víst að um sama stað sé að ræða.[6] Austrómverski sagnaritarinn Mikhael Attaleiates segir frá því í samtímasögu sinni sem er skrifuð á 11. öld að Albanoi hafi tekið þátt í uppreisn gegn Konstantínópel árið 1043. Hann minnist líka á Arbanitai sem undirsáta hertogans af Dyrrachium (Durrës).[7] Á miðöldum nefndu Albanar land sitt Arbëri eða Arbëni og sjálfa sig Arbëreshë eða Arbëneshë.[8]

Í dag kalla Albanar land sitt Shqipëri eða Shqipëria. Orðin Shqipëri og Shqiptar koma fyrir frá 14. öld,[9] en það var ekki fyrr en á 17. öld sem staðarheitið Shqipëria og þjóðarheitið Shqiptarë tóku við af Arbëria og Arbëreshë meðal albönskumælandi fólks.[9][10] Sqhipëri er hugsanlega dregið af albanska orðinu yfir örn (shqiponjë) eða sögninni að bera fram (shqiptoj) sem er dregin af latneska orðinu excipere og merkir þá „þeir sem tala sama mál“.[11]

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Gullörn er þjóðarfugl Albaníu.

Albanía býr yfir mikilli líffjölbreytni vegna staðsetningar sinnar í miðju Miðjarðarhafi og vegna þess hve landslag, veðurfar og vatnafar eru fjölbreytt.

Fjöll og hæðir eru þakin gróðri, grösum og skógi, og skapa þannig kjöraðstæður fyrir mikinn fjölda dýrategunda, þar á meðal tvær tegundir í útrýmingarhættu; balkangaupuna og brúnbjörn. Auk þess lifa þar villiköttur, gráúlfur, rauðrefur, gullsjakali, skarngammur og gullörn, sem er þjóðardýr Albaníu.

Árósar, votlendi og stöðuvötn eru mikilvæg búsvæði fyrir rauðflæmingja, dvergskarf og hrokkinkana, sem er afar sjaldgæfur. Við strendur landsins kæpa meðal annars munkselur, risasæskjaldbaka og græn skjaldbaka.

Í plöntulandfræði er Albanía hluti af holarktíska flóruríkinu. Hægt er að skipta landinu í fjögur vistsvæði: Sígrænu Illyríuskógana, blönduðu Balkanskógana, blönduðu Pindusfjallaskógana og blönduðu Dinarafjallaskógana.

Um 3.500 plöntutegundir finnast í Albaníu og er samsetning þeirra dæmigerð fyrir Miðjarðarhafssvæðið og Evrasíu. Grasalækningar eiga sér langa hefð í landinu. Um 300 tegundir jurta eru notaðar í lækningaskyni. Trjátegundir eru aðallega þinur, eik, beyki og fura.

Í Umhverfisvísitölunni árið 2010 var Albanía í 23. sæti af 163 löndum. Árið 2012 fór landið upp í 15. sæti og var hæst af löndum í Suður- og Austur-Evrópu og Mið-Asíu. Landið var í 13. sæti í Hamingjusöm jörð-vísitölunni árið 2016.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Albanía skiptist í 12 sýslur sem hver hefur sitt sýsluráð og sýslustjórn. Sýslurnar eru aðalstjórnsýslueining landsins og skiptast aftur í 61 sveitarfélag. Sveitarfélögin bera ábyrgð á grunnþjónustu og löggæslu. Alls eru 2980 þorp eða byggðir í landinu.

Sýslurnar voru stofnaðar árið 2000 og tóku við af 36 umdæmum. Ríkisstjórnin kynnti stjórnsýsluumbætur árið 2015 þar sem sveitarfélögum var fækkað í 61 og dreifbýlisfélög voru lögð niður. Fyrrverandi sveitarfélög voru eftir það þekkt sem hverfi eða þorp.

Fjölmennasta sýsla landsins er Tirana-sýsla með yfir 800.000 íbúa. Næstfjölmennasta sýslan, Fier-sýsla, er með 300.000 íbúa. Fámennasta sýslan er Gjirokastër-sýsla með yfir 70.000 íbúa. Stærsta sýslan er Korçë-sýsla, 3.711 km² að stærð í suðausturhluta Albaníu. Þar á eftir kemur Shkodër-sýsla sem er 3.562 km². Minnsta sýslan er Durrës-sýsla sem er 766 km² að stærð í vesturhluta landsins.


Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „CIA - The World Factbook“. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. maí 2020. Sótt 4. apríl 2011.
  2. Reports: Poverty Decreases In Albania After Years Of Growth.Dow Jones Newswires, 201-938-5500. Nasdaq.com
  3. „Albania applies for EU membership“. 28 Apríl 2009.
  4. Madrugearu A, Gordon M. The wars of the Balkan Peninsula. Rowman & Littlefield, 2007. p. 146.
  5. Richard Talbert (2000). Barrington Atlas of the Greek and Roman World (ISBN 0-691-03169-X): 49 & neðanmálsgreinar.
  6. The Illyrians eftir J. J. Wilkes, 1992, ISBN 978-0-631-19807-9, síða 279, „We cannot be certain that the Arbanon of Anna Comnena is the same as Albanopolis of the Albani, a place located on the map of Ptolemy (3.12)“
  7. Robert Elsei. The Albanian lexicon of Dion Von Kirkman. Earliest reference to the existence of the Albanian language, pp. 113–122.
  8. Casanova. „Radio-Arberesh.eu“. Radio-Arberesh. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. apríl 2010. Sótt 13. september 2014.
  9. 9,0 9,1 Matasović, Ranko (2019). A Grammatical Sketch of Albanian for Students of Indo European (PDF). Zagreb. bls. 39.
  10. Lloshi, Xhevat (1999). „Albanian“. Í Hinrichs, Uwe; Büttner, Uwe (ritstjórar). Handbuch der Südosteuropa-Linguistik. Wiesbaden: Otto Harrassowitz Verlag. bls. 277. ISBN 9783447039390.
  11. Kamusella, Tomasz (2009). The politics of language and nationalism in modern Central Europe. Basingstoke: Palgrave Macmillan. ISBN 9780230550704.