Fara í innihald

Áróður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Áróðursveggspjald frá Bandaríkjunum.

Áróður er skilaboð sem er ætlað að hafa áhrif á skoðanir og hegðun fólks. Í stað þess að setja upplýsingar fram á óhlutdrægan máta er framsetningu upplýsinga í áróðri beinlínis ætlað að hafa áhrif á viðtakandann. Áhrifaríkur áróður er oft sannleikanum samkvæmur.

Áróður, agitation og propaganda

[breyta | breyta frumkóða]

Alþjóðlegu orðin agitation og propaganda eru oft útskýrð þannig að agitation er ræða eða sem hvetur til aðgerða, en propaganda sé kerfisbundnari (og lævísari) útvörpun á hugmyndum til að hafa áhrif á menn. Á íslensku eru bæði orðin oft þýdd sem áróður eða undirróður, þó undirróður sé í raun lúmskari eða áróður að tjaldabaki eins og stendur í orðabók Eddu. Sigfús Blöndal segir í orðabókinni sem við hann er kennd (1920-1924): „áróður (undirróður): 3. merking: „Agitation, stadig Tilskyndelse til noget." Jón Ófeigsson hefur í Þýzk-íslenzkri orðabók sinni 1925: „Agitator" = „áróðrarmaður" og „Agitation" = róður, undirróður" og reyndar fleira. Á stríðsárunum (1939-1945) notuðu kunnir rithöfundar orðið áróður mikið, og sést ekki á skrifum þeirra að þeir geri greinarmun á því sem Danir kalla agitation og propaganda: Kristinn E. Andrésson, Kristján Jónsson frá Garðsstöðum, Guðmundur G. Hagalín, Símon Jóhannes Ágústsson, Björn Guðfinnsson og Einar Ólafur Sveinsson. Hinn síðastnefndi sagði t.d. í bókinni Við uppspretturnar:

„Prédikun er sunnudagsorð, rúmhelga orðið er áróður.“

Orðið áróður þýddi upphaflega það að róa á skipi, eða róðrarkvöð leiguliða gamalla stóls- og konungsjarða. Stundum líka ásókn eftir einhverju. Nú er orðið aðallega notað í merkingunni: „umtal eða skrif til að fá menn til að taka afstöðu með eða móti einhverju eða einhverjum, málafylgja, fortölur“. Aróður var talið til nýyrða árið 1953. Þá kom út bókin Nýyrði I í ritstjórn Sveins Bergsveinssonar. Þar segir: „áróður: propaganda, agitation. Samheiti: útbreiðslustarfsemi. Helstu samsetningar: áróðursaðferð, áróðursbragð, áróðursmaður, í áróðurs skyni, áróðursstarfsemi, áróðurstæki; gagnáróður, flokksáróður, stjórnmálaáróður, utanflokks- og innanflokksáróður.“

Af þessu má sjá að áróður er látinn standa jafnt fyrir agitation og propaganda, enda er „í áróðurs skyni" annarstaðar þýtt á dönsku sem „i propagandaøjemed“. Í Nudansk ordbog (8. útg. 1989) er agitation útskýrt þannig: „ ...kraftig virken for en sag: partiet drev en pågående agitation blandt arbejderne propaganda: ... benævnelse på en katolsk institution; den moderne betydning forst í 19. árhundrede: agitation for en idé."

Í frönsku er sagt: Faire de l'agitation og þýtt á íslensku í frönsk-íslensku orðabókinni sem: „að vera með pólitískan áróður“. Í ensk-íslensku orðabókinni (með alfræðilegu ívafi) er 3. merking agitation: „áróður, umræður til framdráttar baráttumáli“. Það er því erfitt að greina mun á hugtökunum í íslensku, en hann er fyrir hendi.

  • „Hvað er áróður?“. Vísindavefurinn.
  • „Skilar stjórnmálaáróður árangri og hvers vegna þá?“. Vísindavefurinn.