Fara í innihald

Ólafur danski

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ólafur danski (d. 1555) var fyrsti skólameistari Skálholtsskóla í lútherskri tíð. Þegar ákveðið var að stofna skóla á biskupssetrunum 1552 strandaði á því að menntaðir skólastjórar fengust ekki því engir Íslendingar þóttu hæfir til starfsins. Páll Hvítfeld höfuðsmaður kom því með danskan mann með sér til að stýra Skálholtsskóla og Ólafur Hjaltason Hólabiskup flutti sömuleiðis með sér danskan mann til að stýra Hólaskóla. Vera má að Ólafur skólameistari hafi verið sami Ólafur og sá sem var sveinn Kristófers Hvítfelds árið 1541 og var látinn þjóna biskupi og lesa guðsorð.

Ólafur var skólameistar í Skálholti í tvö ár en drukknaði í Brúará 1555. Líið fannst skömmu síðar og var Ólafur jarðaður í Skálholtskirkju, á milli Gissurar biskups Einarssonar og Odds Gottskálkssonar. Ólafur hafði með sér danskan heyrara sem Jakob hét og hafði áður komið í Skálholt því hann var þar tólf ára með Diðrik frá Minden þegar hann var drepinn þar 1539.

  • „„Skólameistararöð í Skálholti". Norðanfari, 57.-58. tölublað 1880“.
  • „„Saga latínuskóla á Íslandi til 1846". Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 14. árgangur 1893“.