Fáni Laos
Fáni Laos var gerður að þjóðfána 2 desember, 1975. Sami fáni var notaður af hinni skammlífu stjórn hins sjálfstæða Laos 1945 og af Pathet Lao.
Í fánanum eru þrjár lágréttar rendur, bláa miðröndin er tvöföld breidd rauðu randanna fyrir ofan og neðan. Í miðju er hvítur hringlaga flötur sem er 0.8 sinnum hæð bláu randarinnar. Hlutföll fánans er 2:3.
Rauði liturinn táknar blóðið sem sjálfstæðisbaráttan kostaði og sá blái auð þjóðarinnar. Hvíti skjöldurinn táknar tunglið yfir fljótinu Mekong en einnig samstöðu landsins undir stjórn kommúnista.
Frá 1952 þangað til að konungsstjórnin féll 1975 var fáni ríkisins rauður með þríhöfða hvítum fíl (guðinn Erawan) í miðju. Fyrir ofan fílinn er níu laga sólhlíf, en hann stendur á fimm þrepa palli. Hvítur fíll er algengt tákn konunga í Suðaustur-Asíu , höfuðin þrjú eru tákn hinna þriggja fornu konungsríkja í Laos, Vientiane, Luang Prabang, og Xiengkhoung. Níu laga sólhlíf er einnig konunglegt tákn sem kemur frá fjallinu Sumeru í heimsmynd búddhista. Pallurinn táknaði þau lög sem ríkið hvíldi á.