Ludvig Harboe
Ludvig Harboe (16. ágúst 1709 – 15. júní 1783) var þýskur guðfræðingur, sem starfaði í Danmörku. Hann var Hólabiskup 1741 til 1745 og jafnframt Skálholtsbiskup eitt ár frá 1744 til 1745, biskup í Þrándheimi eftir það og loks Sjálandsbiskup frá 1757.
Ludvig Harboe var prófastssonur frá Lukkuborg (Glücksburg) í Slésvík og gekk í menntaskóla í Hamborg. Hann lærði síðan í háskólunum í Rostock, Wittenberg og Jena. 1741 var hann sendur af danska kirkjustjórnarráðinu (kirkekollegiet) til Íslands til að rannsaka fræðslumál ásamt Jóni Þorkelssyni Thorcilliusi og ferðuðust þeir um landið á sumrum og könnuðu læsi hjá unglingum 12-17 ára en sátu á Hólum á vetrum. Hann sendi og frá sér nokkrar tilskipanir sem biskup, meðal annars um húsaga, skriftamál, hjónabandið o.fl. Harboe fór með vald Hólabiskups frá 1741 til 1745 og Skálholtsbiskups 1744 til 1745 þar sem báðir biskupar voru þá nýdánir, en hann hlaut ekki formlega biskupsvígslu fyrr en hann sneri aftur til Kaupmannahafnar 1745. 1746 tók hann við biskupsstólnum í Niðarósi í Þrándheimi. 1748 sneri hann aftur og giftist Frederikke Louise Hersleb dóttur þáverandi Sjálandsbiskups, Peder Hersleb. Nokkrum mánuðum fyrr hafði tengdafaðir hans gert hann að aðstoðarmanni sínum og við lát hans 1757 varð Ludvig Harboe Sjálandsbiskup, sem hann var til dauðadags.
Þegar Ludvig Harboe kom til Kaupmannahafnar árið 1745 kom Jón Eiríksson, síðar konferensráð með honum en Harboe hafði tekið ástfóstri við Jón og reyndist mikill velgjörðarmaður hans. Jón fylgdi biskupi til Niðaróss.
Ludvig Harboe var kunnur fræðimaður og tók t.d. saman rit um siðaskiptin á Íslandi. Hann var í Vísindafélaginu danska.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]
Fyrirrennari: Steinn Jónsson |
|
Eftirmaður: Halldór Brynjólfsson | |||
Fyrirrennari: Jón Árnason |
|
Eftirmaður: Ólafur Gíslason | |||
Fyrirrennari: Eiler Hagerup eldri |
|
Eftirmaður: Frederik Nannestad | |||
Fyrirrennari: Peder Herleb |
|
Eftirmaður: Nicolai Edinger Balle |